Ríkisendurskoðun gagnrýnir Seðlabanka Íslands harðlega vegna veðlána hans til fjármálafyrirtækja fyrir hrun í skýrslu sinni til Alþingis vegna endurskoðun ríkisreiknings sem birt var í dag.

Veðlánin námu alls 345 milljörðum króna. Seðlabankinn afskrifaði sjálfur 75 milljarða króna af upphæðinni en ríkissjóður uyrfti að gefa út verðtryggt skuldabréf upp á hina 270 milljarða króna og afhenda Seðlabankanum til að koma í veg fyrir gjaldþrot hans. Ríkið skuldar því þá upphæð vegna þessarar viðskipta auk vaxta, sem eru 2,5 prósent á ári, eða 6,8 milljarðar króna fyrsta árið ef ekkert greiðist af höfuðstólnum. Ríkið hefur þegar afskrifað stóran hluta upphæðarinnar á ríkisreikningi ársins 2008.

Gagnrýna „leiki“ viðskiptabankanna

Í skýrslunni er farið yfir þær aðstæður á fjármálamörkuðum sem urðu til þess að íslensku viðskiptabankarnir þurftu að leita til Seðlabankans eftir lausafjárfyrirgreiðslu, og þeim „leik“ Kaupþings, Landsbanka og Glitnis að láta minni fjármálafyrirtæki sækja slíka fyrirgreiðslu fyrir sig þegar þeir voru sjálfir búnir með sinn kvóta af lausafé sem fékkst gegn ótryggum veðum.

Orðrétt segir að „spyrja má hvers vegna Seðlabankinn brást ekki fyrr við þessum „leik“ bankanna og herti kröfur um veð gegn lánum til minni fjármálafyrirtækja. Að mati Ríkisendurskoðunar hefði þetta getað dregið úr því tjóni sem ríkisjóður og Seðlabankinn sátu uppi með eftir fall bankanna.“

Átti sér langan aðdraganda

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að í ágúst 2007 hafi alþjóðlegir fjármagnsmarkaðir lokast alveg fyrir lán til íslenskra eignarhaldsfélaga og íslenskra banka í útrás þar sem skuldatryggingaálag þeirra hefði hækkað mjög mikið. Því hafi bankakerfið hér á landi í auknum mæli leitað „til Seðlabankans og fékk þar lán gegn veðtryggingum.“

Í upphafi árs 2008 hafi eftirspurn viðskiptabankanna þriggja eftir veðlánum Seðlabankans aukist mikið. Frá upphafi þess árs til 1. október 2008 jukust veðlánin úr 302 milljörðum króna í 502 milljarða króna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að „mikið bar á krossveðum í tengslum við þessar lánveitingar en þau felast í því að lántaki býður veð í verðbréfum sem annar aðili gefur út.“

Seðlabankinn treysti sér ekki til að herða skilmála

Vegna þess hversu lausafjárstaða Kaupþings, Glitnis og Landsbanka hefði verið slæm árið 2008 þá treysti Seðlabankinn sér framan af ekki til þess að herða lána- og tryggingaskilmála sína. Það var loks gert í ágúst 2008, nokkrum vikum fyrir hrun íslenska bankakerfisins. Frá þeim tíma var stefnt að því að ótryggð bréf mættu ekki vera meira en 50 prósent af heildarverðmæti veðtrygginga hvers fjármálafyrirtækis. Þessu markmiði átti að ná í árslok 2008.

Sparisjóðabankinn með 42 prósent ótryggðu veðlánanna

Skýrsla Ríkisendurskoðunar segir að „í þessu sambandi má geta þess að samtals námu ótryggð bréf sem lögð voru fram gegn lánum til Sparisjóðabankans 142 ma.kr. vil fall bankanna eða um 42 prósent af heildarfjárhæð þeirra lána (án vaxta) sem ríkissjóður yfirtók. Lánin voru tryggð með veði í verðbréfum útgefnum af Kaupþingi, Landsbankanum og Glitni“.

Fyrir hafi legið að föllnu bankarnir þrír hefðu aflað sér lausfjár með lánum frá minni fjármálafyrirtækjum á borð við áðurnefndan Sparisjóðabanka, VBS fjárfestingabanka, Saga Capital og Spron. Sá leikur virkaði þannig að minni fjármálafyrirtækin voru nokkurskonar milligönguaðilar fyrir stóru bankanna. Þau fengu þá lán frá Seðlabanka gegn ótryggðum veðum þegar stóru bankarnir höfðu fyllt sinn „kvóta“.

Í skýrslunni segir að „spyrja má hvers vegna Seðlabankinn brást ekki fyrr við þessum „leik“ bankanna og herti kröfur um veð gegn lánum til minni fjármálafyrirtækja. Að mati Ríkisendurskoðunar hefði þetta getað dregið úr því tjóni sem ríkisjóður og Seðlabankinn sátu uppi með eftir fall bankanna.“