Matsfyrirtækið Standard & Poor’s fylgdi í fyrradag lækkun sinni á lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins fyrir innlendar skuldbindingar um einn flokk eftir með því að lækka einnig einkunn Íbúðalánasjóðs og Landsvirkjunar um einn flokk, úr BBB í BBB-. Sá flokkur sem einkunn þessara fyrirtækja er kominn í er lægsti flokkur þess sem kallast fjárfestingargæði og lækki einkunnin frekar mun það fela í sér að bréfin falli í spákaupmennskuflokk, eða ruslflokk eins og hann heitir í daglegu tali.

Hafa ber í huga að horfur á lánshæfi ríkissjóðs og beggja áðurnefndra fyrirtækja eru neikvæðar þannig að alls ekki er hægt að útiloka að lánshæfiseinkunnin verði færð niður í ruslflokk þegar fram líða stundir. Ef til vill ætti það ekki að koma á óvart að lánshæfi fyrirtækjanna hafi verið lækkað enda eru þau bæði í ríkiseigu og þannig talin hafa ríkisábyrgð á lánum sínum. Lánshæfi þeirra helst því í hendur við lánshæfi ríkissjóðs.

Geta ríkisins ekki jafn mikil

Eins og segir í tilkynningu matsfyrirtækisins um lækkun einkunnar Íbúðalánasjóð, sem birt hefur verið í tilkynningakerfi kauphallar, endurspeglar lækkunin það mat S&P að ríkið hafi ekki jafn mikla getu til þess að styðja við Íbúðalánasjóð ef í harðbakkann slær þar sem einkunn ríkisins hefur verið lækkuð.

„Einkunnir ÍLS endurspegla þá skoðun okkar að mjög miklar líkur séu á því að ríkisstjórn Íslands muni, sem eini eigandi sjóðsins, styðja tímanlega og nægilega við hann ef harðnar í ári,“ segir í tilkynningunni og er síðan vísað til lykilhlutverks sjóðsins á íslenskum fjármálamarkaði auk 33 milljarða stofnfjárframlags ríkisins til sjóðsins nýlega.

Svipaðan rökstuðning fyrir lækkun Landsvirkjunar er að finna í tilkynningu S&P, þ.e. ríkið er eini eigandi fyrirtækisins og treyst er á að ríkið muni hlaupa undir bagga með fyrirtækinu sem gegnir lykilhlutverki í orkuöflun landsins. Þá er tekið fram að skuldsetning sé há og sjóðsstreymishlutföll veik.

Meiri áhrif á Landsvirkjun

Óneitanlega verður að teljast líklegt að ákvörðun Standard & Poor’s geti haft áhrif á fjármögnunarkostnað fyrirtækjanna tveggja og þá sérstaklega Landsvirkjunar. Fjármögnun Íbúðalánasjóðs er þannig háttað að hún er eingöngu á innlendum markaði og öðru fremur eru það lífeyrissjóðirnir sem kaupa íbúðabréfin. „Þeir eru ekki mjög uppteknir af lánshæfiseinkunn enda hafa þeir ekki úr miklu að velja,“ sagði einn viðmælenda Viðskiptablaðsins í gær.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að lækkunin hafi ekki áhrif á stöðu fyrirtækisins eins og er enda er fjármögnun Búðarhálsvirkjunar tryggð. Hins vegar má nefna að hefði S&P lækkað einkunn ríkissjóðs í erlendum fjárfestingum væri staðan sennilega önnur enda er í lánasamningum við Evrópska fjárfestingarbankann vegna Búðarhálsvirkjunar ákvæði um lágmarkseinkunn ríkissjóðs. Þá gæti lækkunin haft áhrif þegar fram í sækir.

Í þessu samhengi er vert að minnast þess að Fitch Ratings staðfesti einkunnir ríkissjóðs á mánudag. Einkunnin fyrir erlendar skuldbindingar er í spákaupmennskuflokki, BB+, en einkunnin fyrir innlendar skuldbindingar er í fjárfestingarflokki, BBB+. Fitch metur ekki lánshæfi Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs, eitt matsfyrirtækjanna þriggja, en leiða má líkur að því að einkunn þeirra hefði einnig verið staðfest af Fitch.