Lokatölur liggja nú fyrir í alþingiskosningunum og mesta breytingin á fylgi flokkanna er sú að Sjálfstæðisflokkurinn tapar 9 þingmönnum og fær nú 16. Hann fær nú 22,9% atkvæða og er annar stærsti flokkur landsins. Þetta eru verstu úrslit flokksins sem frá upphafi hefur verið stærsti flokkur landins í atkvæðum talið.

Samfylkingin minni en árið 2003

Önnur helsta breytingin er sú að Vinstrihreyfingin - grænt framboð bætir við sig 5 þingmönnum og fær 14 og er með 20,9% fylgi. Þetta er minna en kannanir höfðu bent til, en samkvæmt þeim virtist flokkurinn ætla að verða ámóta stór og Samfylkingin og stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Samfylkingin endaði hins vegar mun stærri en VG og hefur því hlutfallslega sterkari stöðu við væntanlega ríkisstjórnarmyndun en skoðanakannanir höfðu gefið til kynna. Samfylkingin bætir þó minna við sig en VG, eða 2 þingmönnum frá síðustu kosningum og er nú með 20. Fylgið er nú 28,8%, sem er tæplega 3% meira fylgi en fyrir tveimur árum, en tæplega 2% minna en árið 2003 þegar Samfylkingin fékk rúmlega 30% fylgi.

Auðum seðlum fjölgar mikið

Samtals fengu ríkisstjórnarflokkarnir drjúgan meirihluta þingmanna, eða 34 þingmenn af 63. Það var hins vegar minnihluti kjósenda sem greiddi þeim atkvæði sitt, eða 49,7%. Af gildum atkvæðum fengu þeir þó meirihluta, en þeim atkvæðum sem teljast ógild fjölgaði mikið vegna þess að auðir seðlar voru nú 3,2% greiddra atkvæða en 1,3% fyrir tveimur árum og auðir seðlar teljast ógild atkvæði. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að með því að mæta á kjörstað og skila auðu er kjósandinn að lýsa skoðun sinni á því sem í boði er, ólíkt því þegar hann ógildir seðil fyrir mistök. Seðlar sem ógiltust af þeim sökum voru aðeins 0,27% greiddra atkvæða, sem er svipað hlutfall og verið hefur.

Borgarahreyfingin með 7% og 4 þingmenn

Borgarahreyfingin fékk tæp 7% atkvæða og 4 menn á þing, en þessi nýi flokkur er svo að segja óskrifað blað í íslenskum stjórnmálum. Fyrir flokkinn setjast á þing Þráinn Bertelsson, rithöfundur, Birgitta Jónsdóttir, fyrrum talsmaður Saving Iceland, Þór Saari, hagfræðingur og stundakennari við Tækniskólann, og Margrét Tryggvadóttir, sjálfstætt starfandi myndritstjóri og textasmiður.

Frjálslyndir hverfa af þingi

Frjálslyndi flokkurinn fellur út af þingi. Hann fékk aðeins rúm 2% atkvæða en var með rúm 7% í kosningunum 2007 og 2003. Í Norðvesturkjördæmi, kjördæmi formannsins Guðjóns Arnar Kristjánssonar, fékk flokkurinn aðeins rúm 5% atkvæða. Norðvesturkjördæmi hefur verið höfuðvígi flokksins og það var stuðningur við Guðjón Arnar sem í upphafi varð til að tryggja flokknum þingsæti. Líklegt má telja að tvennt ráði mestu um örlög þingflokks frjálslyndra. Annars vegar ágreiningur og sundurlyndi flokksmanna og hins vegar sú staðreynd að sjávarútvegsmál fengu lítið rými í kosningabaráttunni og urðu aldrei að því hitamáli sem oft hefur orðið áður.

Útstrikanir gætu haft áhrif á það hverjir setjast á þing

Mikið var um útstrikanir og hafa Sjálfstæðisflokkur og Samfylking verið sérstaklega nefndir í því sambandi. Þau atkvæði hafa verið talin en hvort útstrikanirnar hafa einhver áhrif og þá hvaða áhrif, liggur ekki fyrir. Ef útstrikanirnar eru meiri en fimmtungur atkvæða flokks geta þær haft áhrif á röðun á lista og þar með lækkað þann sem strikaður er út. Líklegt er að sú verði raunin í einhverju tilviki, jafnvel fleiri en einu. Þetta getur haft þau áhrif að frambjóðandi sem annars hefði náð kjöri missi þingsæti sitt. Af þessum sökum liggur ekki endanlega fyrir í öllum tilvikum hverjir taka sæti á þingi á þessu kjörtímabili. Líklegt er niðurstaðan liggi fyrir á morgun.