Tilkynnt var í morgun að DeCODE, móðurfélag Íslenskrar Erfðagreiningar, hefði óskað eftir greiðslustöðvun og væri á leið í slitameðferð. Skuldir félagsins er tæplega finnum hærri en virði eigna þess.

Saga DeCODE er bæði ótrúleg og umdeild. Viðskiptablaðið ákvað að þessu tilefni að stikla á stóru í vegferð þess.

Upphafið

DeCODE var stofnað í maí 1996 af Kára Stefánssyni, sem þá var prófessor í tauga- og taugameinafræði við Harvard Institute of Medicine og yfirlæknir á taugameinafræðideild Beth Israel-sjúkrahússins. Kári var einn stofnenda fyrirtækisins, forstjóri þess og andlit út á við. Hugmyndin var sú að fyrirtækið myndi starfa á sviði erfðafræðirannsókna og stofnfé þess var á bilinu tíu til tólf milljónir dala. Það fé var lagt fram af því sem kallað var „sérhæfðum bandarískum fjárfestum.“

Í febrúar 1998 gerði DeCODE samning við svissneska lyfjarisann Hoffman-LaRoche sem tryggði dótturfyrirtæki DeCODE, Íslenskri Erfðagreiningu, um fimmtán milljarða króna á þáverandi verðgildi til að rannsaka alls tólf sjúkdóma. Í sama mánuði var haldið hlutafjárútboð á Íslandi þar sem íslenskum fjárfestum var gert kleift að fjárfesta fyrir um 800 milljónir króna í félaginu. Viðskiptin fóru fram á hinum svokallaða „Gráa markaði.“

Grái markaðurinn lék marga grátt

Sá markaður var ætlaður fyrir hlutabréf sem ekki voru skráð á skipulegan verðbréfamarkað. Grái markaðurinn varð til þegar nokkrir íslenskir bankar tóku sig saman og settu af stað vefsíðu þar sem haldið var skipulega utan um tilboð og viðskipti á þessum markaði. Ekkert opinbert eftirlit var með því sem fram fór á honum en það kom ekki í veg fyrir gríðarlegan almennan áhuga með bréf á honum.

Bréf í DeCODE voru fyrirferðarmikil á þessum markaði og gengi þeirra fór upp í 65 dali á hlut um tíma. Þegar netbólan sprakk um aldarmótin síðustu þá hafði það í för með sér að bréf margra þeirra félaga sem voru í viðskiptum á gráa markaðinum féllu hratt í verði. Um sex þúsund einstaklingar og lögaðilar keyptu bréf DeCODE á gráa markaðinum á Íslandi áður en að félagið var nokkru sinni skráð á skipulegan hlutabréfamarkað. Sumir náðu að selja með hagnaði en fjölmargir töpuðu stórum fjárhæðum.

Auk þess keyptu íslenskir bankar, sem allir voru í ríkiseigu,  ásamt innlendum fjárfestum, hlutabréf í DeCODE fyrir um sex milljarða króna í júní 1999. Bankarnir seldu síðan 45 prósent af því sem þeir höfðu keypt til fagfjárfesta skömmu síðar.

Kaup bankanna í DeCODE voru túlkuð sem traustyfirlýsing á félagið og Margeir Pétursson, nú stjórnarformaður MP banka, skrifaði meðal annars blaðagrein í Morgunblaðið í júlí 1999 undir fyrirsögninni „Bankarnir viðurkenna verðmæti DeCODE.“ Þar kallaði Margeir fyrirtækið „eitt magnaðasta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir.“

Eina íslenska félagið á Nasdaq

DeCODE hafði unnið skipulega í töluverðan tíma að skráningu í bandarísku Nasdaq-kauphöllina í aðdraganda aldarmótanna. Ungur aðstoðarforstjóri félagsins, Hannes Smárason, bar hitann og þungann af því ferli. Íslensk Erfðagreining hlaut síðan rekstarleyfi fyrir miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði í janúar 2000 og nokkrum mánuðum síðar var móðurfélagið DeCODE skráð í Nasdaq-kauphöllina.

Viðskipti með bréf félagsins hófust 18. júlí árið 2000 og er DeCODE fyrsta og eina íslenska félagið sem skráð hefur verið á Nasdaq. Opnunargengi bréfa félagsins var 28,5 dalir á hlut en það lækkaði hratt eftir það. Undanfarið ár hefur virði bréfa félagsins verið undir einum dal á hlut. Það var í kringum 20 cent á hlut í lok síðustu viku.

Umdeild ríkisábyrgð sem var aldrei nýtt

DeCODE var alltaf umdeilt félag. Ekki minnkaði sá hiti þegar að félagið fékk 200 milljón dala ríkisábyrgð til að fjármagna rannsóknir og verkefni til að hefja lyfjaþróun á grundvelli erfðafræði. Könnun sem Talnakönnun hf. framkvæmdi í apríl 2002 sýndi að 75 prósent landsmanna voru andvígir ábyrgðinni. Ríkisstjórn þess tíma stóð þó fast á sínu og ábyrgðin var fest í lög 23. maí 2002 með 27 atkvæðum gegn þrettán. DeCODE nýtti sér þó aldrei heimildina þar sem umfjöllun um hana stóð föst hjá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, í lengri tíma. Félagið aflaði þess í stað 150 milljón dala í skuldabréfaútboði.

Kári Stefánsson sendi í kjölfarið bréf, dagsett 11. apríl 2004, til Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, þar sem hann kvað DeCODE ekki þurfa lengur á ríkisábyrgðinni að halda né hefði félagið lengur áhuga á að nýta sér hana.

Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu eru lögin þó enn í gildi. Því gæti DeCODE enn sótt um ríkisábyrgðina en fjármálaráðherra þyrfti þá að samþykkja hana og skrifa undir samninga þess efnis. Sagt var frá því í mars 2008 að heimild til veitingar ríkisábyrgðarinnar væri enn til í lögum. Þá unnu lögmenn á nefndarsviði Alþingis og sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu álit á því hvort ábyrgðin væri enn í gildi.

Í svari þeirra, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur fram að „eftir standa hins vegar lögin og verður að telja að ráðherra hafi enn þá heimild til að veita ríkisábyrgð komi ný beiðni um slíkt frá ÍE (innsk. blaðam. Íslensk Erfðagreining)“. Kári Stefánsson hefur þó sagt opinberlega að hann telji heimildina ekki vera í gildi þar sem að ekki hafi verið beðið um ríkisábyrgðina.

Miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Annað mál sem snéri að DeCODE og þótti mjög umdeilt var rekstur miðlægs gagnagrunnar á heilbrigðissviði. Frumvarp um slíka gagnagrunn var lagt fram á Alþingi vorið 1998. Í gagnagrunninum átti að geyma mjög víðtækar en ópersónugreinarlegar heilsufarsupplýsingar um íslensku þjóðina sem yrðu skráðar á kerfisbundinn hátt í einn miðlægan gagnagrunn sem var ætlaður til úrvinnslu og upplýsingamiðlunar. Einn rekstaraðili átti síðan að veljast til að gera og starfrækja gagnagrunninn og átti hann að fá rekstarleyfi til tólf ára í senn.

Afar heitar umræður urðu um málið fram eftir sumri 1998 þar sem margir voru ósáttir við að mjög víðtækar upplýsingar um þá myndu fara í grunninn, yrði hann að veruleika. Breytt frumvarp var þó lagt fram í lok árs og málið samþykkt í desember 1998.

Íslensk erfðagreining, dótturfélag DeCODE, hlaut síðan rekstrarleyfi fyrir grunninum í janúar 2000, nokkrum mánuðum áður en félagið var skráð í Nasdaq kauphöllina. Gagnagrunnurinn hefur þó aldrei orðið til og því aldrei reynt á lögin. Dómur Hæstaréttar í nóvember 2003 viðurkenndi rétt dóttur til að synja um að upplýsingar um látinn föður hennar yrðu færðar í gagnagrunninn og í kjölfarið var ráðist í endurskoðun á ákveðnum þáttum laganna. Heilbrigðisráðuneytið lét vinna frumvarp sem lagði til ákveðnar breytingar á lögunum en það var aldrei lagt fyrir Alþingi.

Í svörum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þáverandi  heilbrigðisráðherra, vegna fyrirspurnar um málið á Alþingi í fyrra kom fram að ekkert benti til þess að svo yrði á næstunni þar sem „segja má að lögin séu í reynd dauður bókstafur og því er ekki talin ástæða til að ráðast í endurskoðun þeirra. Að óbreyttu er því gert ráð fyrir að lögin verði felld úr gildi eigi síðar en þegar rekstarleyfi Íslenskrar erfðagreiningar til starfsrækslu gagnagrunnarins rennur út í janúar 2012.“

Ævintýrið á enda

Tilkynnt var í dag að DeCODE hefði óskað eftir greiðslustöðvun í Bandaríkjunum. Félagið fer að öllum líkindum í slitameðferð og verður í kjölfarið úrskurðað gjaldþrota. Dótturfyrirtækið Íslensk Erfðagreining og öll starfsemi þess verður seld til bandaríska fyrirtækisins Saga Investments. Starfsemi þess á Íslandi mun halda áfram.

Í umsókn DeCODE um greiðslustöðvun kemur fram að heildarskuldir félagsins séu um 314 milljónir dala, eða tæpir 40 milljarðar króna. Eignir félagsins eru brot af þeirri upphæð, um 70 milljónir dala, eða um átta og hálfur milljarður króna.