Undanfarin misseri hefur kastljós markaðarins beinst öðrum fremur að Grikklandi og öðrum skuldsettum Miðjarðarhafsríkjum á borð við Ítalíu og Spán. Skal engan undra að ástandið í efnahagsmálum þessara ríkja sé grafalvarlegt og hafa þau um langt skeið eytt um efni fram og fjármagnað þá eyðslu með skuldsetningu. Nú nálgast skuldadagar og erfitt hefur reynst að fá lán endurfjármögnuð. Þetta á einkum og sér í lagi við um Grikki sem þurft hafa að reiða sig á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra Evrópuríkja sem vitanlega leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að ástandið í efnahagsmálum Grikkja breiðist út.

Bæði Ítölum og Spánverjum hefur tekist að gefa út skuldabréf á undanförnum vikum til þess að endurfjármagna bráðasta vandann en óvissan um stöðu þessara ríkja er þó mikil og er hún öðru fremur það sem veldur evrópskum fjárfestum áhyggjum um þessar mundir enda er vandi Grikkja löngu þekktur. Þessi óvissa endurspeglast í hruni undanfarinna daga og vikna á evrópskum hlutabréfamörkuðum en svo virðist sem ofsahræðsla hafi gripið um sig hjá fjárfestum og gildir þá einu hvort um er að ræða fagfjárfesta eða leikmenn, sem lagt hafa hluta sparifjár síns í hendur hlutabréfamarkaðarins.

Ítalía og Spánn eru bæði í hópi stærstu hagkerfa Evrópu og því veldur óvissan um efnahagsstöðu þessara ríkja bæði stjórnmálamönnum og fjárfestum meiri áhyggjum en hremmingar þær sem Grikkir, Írar og Portúgalir hafa gengið í gegnum, saman hafa þessi fimm hagkerfi verið kölluð PIIGS eða Grísland á íslensku. Hagkerfin tvö eru á meðal helstu stoða evrunnar og því er ljóst að lendi þau í svipaðri stöðu og PIG-löndin þrjú myndi það grafa enn frekar undan evrunni. Skal því engan undra að öllum árum sé beitt í lífróðrinum en skuldir ríkissjóðs Ítalíu námu um áramótin 119% af landsframleiðslu og skuldir Spánar voru um 60% af landsframleiðslu samkvæmt upplýsingum á vef Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins

Þáttur S&P

Athygli vekur að lækkanir undanfarinna daga á hlutabréfamörkuðum hafa ekki verið einskorðaðar við evrópska markaði. Fréttir bárust af miklum lækkunum í kauphöllum Mið-Austurlanda um helgina auk þess sem miklar lækkanir áttu sér stað bæði vestanhafs og í Asíu í síðustu viku og í upphafi þessarar viku. Þetta helgast þó mun fremur af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum á undanförnum vikum heldur en skuldavanda Miðjarðarhafsríkjanna. Eftir lokun markaða á föstudag bárust nefnilega þau fáheyrðu tíðindi, sem væntanlega hafa ekki farið framhjá neinum, að bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor‘s lækkaði lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna.

Þetta er í fyrsta skipti sem þetta stærsta og mikilvægasta hagkerfi heims nýtur ekki lengur hæstu lánshæfiseinkunnar og jafnvel fulls lánstrausts ef svo má að orði komast. Jafnframt verður þetta að teljast mikið áfall fyrir fjármálamarkaðinn enda hafa bandarísk ríkisskuldabréf lengi verið talin hið næsta sem hægt er að komast algjörlega áhættulausum fjárfestingum. Þar hafa fjárfestar leitað skjóls þegar horfur hafa versnað enda algjörlega óhugsandi að sjálf Bandaríkin myndu lenda í vanskilum. Í þeim skilningi hafa bandarísk ríkisskuldabréf nánast notið sömu virðingar og gull.

Lægri lánshæfiseinkunn getur leitt til hærri ávöxtunarkröfu á bandarísk ríkisskuldabréf sem síðan felur í sér lægra verð á bréfunum enda er neikvæð fylgni á milli verðs og ávöxtunarkröfu skuldabréfa. Eigendur þessara skuldabréfa gætu því þurft að sjá verð skuldabréfa sinna lækka eitthvað.