Innflutningur bíla, sem endurspeglast í tölum Umferðastofu um nýskráningar, heldur áfram að dragast hratt saman á milli ára. Samdrátturinn hefur þó farið minnkandi. Þannig var innflutningur fólksbíla í júlí 38% minni í ár en í fyrra, en í júní var samdrátturinn 64% og í maí 84%. Þessa þróun má sjá á meðfylgjandi línuriti.

Samdráttarskeiðið hófst í júlí í fyrra

Skýringuna á minnkandi samdrætti er að stórum hluta að finna í því að samdrátturinn hófst fyrir alvöru í júlí í fyrra. Þá tók innflutningur fólksbíla snögga dýfu og samdrátturinn fór úr 19% í 62% frá júní til júlí. Frá þeim tíma hefur innflutningur bíla ekki verið svipur hjá sjón miðað við það sem var og samdrátturinn á milli ára farið í um 94%, en það var í nóvember og desember í fyrra.

Stærsti hluti batans í fyrri hluta júlí

Innflutningur nýrra fólksbíla í júlí var í ár rúmlega tvöfalt meiri en í maí, sem er mjög óvenjulegt og gæti verið vísbending um að innflutningur sé að taka við sér á ný. Innflutningur er yfirleitt mestur í júní og töluvert meiri í maí en í júlí. Haldi þessi þróun áfram má því reikna með að innflutningurinn sé að hjarna heldur við.

Á móti kemur að þessi hlutfallslega aukning í júlí átti sér að stærstum hluta stað í fyrri hluta mánaðarins. Fram að miðjum mánuði voru fluttir inn tvöfalt fleiri bílar en í seinni hluta hans. Ef innflutningurinn í fyrri hluta mánaðarins hefði verið sá sami og í seinni hlutanum hefði samdrátturinn á milli ára í júlí verið sá sami og í júní, eða 64%.

Þessi þróun kann að stafa af því að eftir því sem leið á mánuðinn hafi dregið meira úr áhrifum af miklum útsölum hjá einstaka umboði, sem og áhrifum af innkaupum bílaleiga.

Stefnir í um að fluttir verði inn um 2500 nýir fólksbílar í ár

Þó að horft sé framhjá áhrifum af gengishruni, ekki síst í fyrra, er salan á síðustu fimm mánuðum ársins, ágúst til desember, jafnan heldur minni eða jafnvel talsvert minni en á fyrstu fimm mánuðum ársins, janúar til maí.

Það sem af er ári hafa selst 1739 bílar og þar af 1110 í júní og júlí, þ.a. salan var vægast sagt rýr á vormánuðum. Sé tekið mið af samhengi innflutnings á fyrri hluta og seinnig hluta árs á liðnum árum og reynt að horfa einnig til þeirra miklu breytinga sem hafa átt sér stað, þá má ætla að innflutningur nýrra fólksbíla í ár verði um 2500 bílar.

Frá árinu 1994-2008 voru að meðaltali fluttir inn tæplega 11500 nýir fólksbílar á ári. Mest fór innflutningurinn í rúmlega 18000 árið 2005 og minnstur var hann árið 1994 þegar fluttir voru inn 6710 nýir fólksbílar. Gangi það eftir að innflutningur í ár verði um 2500 bílar, verður það samdráttur um nær 4/5 frá meðalári. Með öðrum orðum þá verður innflutningur nýrra fólksbíla í ár aðeins um 20% af því sem menn hafa vanist á síðustu 15 árum að meðaltali.