Mikil umræða hefur átt sér stað á Alþingi um frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um stjórnarráðið. Eins og algengt er á þinginu eru ekki allir á eitt sáttir við frumvarpið en stjórnarandstaðan á Alþingi, þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, leggst eindregið gegn frumvarpinu og hefur gagnrýnt það nokkuð harkalega.

En hvað felur frumvarpið í sér? Eins og núverandi lög segja til um mun forseti Íslands samkvæmt frumvarpinu skipa ráðherra og veita ráðherrum lausn með formlegum hætti. Í upphafi nýja frumvarpsins kemur fram að ráðuneytin í Stjórnarráði Íslands skulu ekki vera fleiri en tíu og þau skulu ákveðin með forsetaúrskurði samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Þá mun forsætisráðherra jafnframt hafa vald til að færa stjórnmálaefni á milli ráðuneyta og skera úr um álitaefni komi upp vafi um hvaða stjórnmálaefni tilheyrir hverju ráðuneyti.

Þá verður ráðherrum jafnframt heimild að ráða til starfa einn ráðgjafa auk aðstoðarmanns. Í dag er ráðherrum heimilt að ráða sér aðstoðarmann án auglýsinga en við það bætist nú ráðgjafi skv. hinu nýja frumvarpi. Í breytingartillögum meirihluta allsherjarnefndar er þó lagt til að ráðherrum verði heimilt að ráða til sín tvo aðstoðarmenn og upp undir þrjá ráðgjafa.

Framtalin atriði eru meðal stærstu breytinga sem frumvarpið felur í sér. Núgildandi lög gera ráð fyrir að ekki sé hægt að stofna ný ráðuneyti eða leggja ráðuneyti nema með lögum frá Alþingi. Samkvæmt nýju frumvarpi verður sem fyrr segir hægt að gera breytingar á ráðuneytum með forsetaúrskurði án lagabreytinga.

Sem fyrr segir hefur stjórnarandstaðan á Alþingi gagnrýnt frumvarpið og þá helst þau atriði sem talin voru upp hér að framan, sem jafnframt fela í sér stærstu breytingarnar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja frumvarpið fela í sér tilfærslu á völdum frá þinginu til forsætisráðherra.

Í nefndaráliti frá þeim Birgi Ármannssyni og Sigurði Kára Kristjánssyni, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt skipa 1. minnihluta allsherjarnefndar, kemur fram að breytingar á ráðuneytum þurfi skv. frumvarpinu ekki lengur að lúta formlegri málsmeðferð á Alþingi þar sem fleiri sjónarmið komast að en þau ein, sem uppi eru innan ríkisstjórnar á hverjum tíma. Þá séu dæmi þess að núgildandi fyrirkomulag komi alls ekki í veg fyrir breytingar á ráðuneytum og að á undanförnum árum hafi skipan ráðuneyta nokkrum sinnum verið breytt með lögum. Taka þeir dæmi um stofnun innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis á síðasta ári.

Þá leggur meirihluti allsherjarnefndar til að hvert ráðuneyti verður ekki lengur „lagt óskipt til eins og sama ráðherra“. Minnihluti nefndarinnar gagnrýnir þessa breytingu og spyr hvort til standi að hafa fleiri en einn ráðherra í hverju ráðuneyti.

Loks gagnrýnir minnihlutinn kostnaðinn sem fylgir aukningu aðstoðarmanna og ráðgjafa en í nefndaráliti minnihlutans segir að miðað við óbreyttan fjölda ráðherra þýði þetta 120 til 130 milljóna króna útgjaldaaukningu á ári.

Hægt er að fylgjast með ferli málsins á Alþingi og sjá breytingartillögur og nefndarálit HÉR .