Vextir á erlendri lánakörfu Orkuveitu Reykjavíkur (OR), upp á samtals 206 milljarða íslenskra króna, eru í dag 0,9 prósent en með 0,25 % ábyrgðargjaldi eru vaxtabyrðin 1,15%. Það telst mjög lágt en vextirnir taka óbeint mið af vaxtastigi erlendra seðlabanka, sem víðast hvar er nú á bilinu 0-1,5% og hefur sjaldan eða aldrei verið lægra.

Gengisfall íslensku krónunnar hefur haft alvarleg áhrif á efnahag OR. Skuldir hafa hækkað mikið, þar sem þær eru að stærstum hluta í erlendri mynt. Um 75-80 prósent tekna OR eru hins vegar í íslenskum krónum.

Fyrirsjáanlegt er að vextir muni hækka nokkuð í framtíðinni, en þó að líkindum samhliða almennum efnahagsbata. Anna Skúladóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs OR, segir líklegt að tekjur OR muni hækka samhliða vaxtahækkunum á mörkuðum. "Það er alveg rétt að vextir eru í lágmarki á öllum mörkuðum nema þeim íslenska og ljóst að vextir munu hækka.  Sterk tengsl eru á milli verðs hrávöru eins og áls og vaxtastigs.  Álverð er þegar komið í uppsveiflu og líklegt að vextir fylgi á eftir.  Þannig má gera ráð fyrir að tekjur Orkuveitunnar tengdar álverði sem eru um 20% tekna  (í áætlun 2010 eru þessar tekjur 5,6 milljarðar) hækki þegar vextir hækka."

Anna segir í svari við fyrirspurnum Viðskiptablaðsins að EBIDTA OR sé í dag 12 milljarðar og að æskilegt sé að vaxtabyrðin fari ekki yfir 6 milljarða. "Hvert prósent í vöxtum er um 2 milljarðar.  Það er erfitt að fullyrða hver þolmörk OR eru en ég myndi segja að æskilegt væri að vaxtabyrði væri ekki meiri en helmingur af EBITDU eða um 6 milljarðar.  Það jafngildir 3ja prósenta vöxtum.  Helmingur EBITDU væri þá notaður til niðurgreiðslu langtímalána. Orkuveitan getur borið vaxtastig allt að 6% en þá væri öll EBITDA notuð til greiðslu vaxta," segir Anna.

Anna segir einnig rétt að benda á að ef skuldir OR hefðu verið í verðtryggðum krónum hefði skuldsetningin verið meira íþyngjandi og haft meiri áhrif á orkuverð til viðskiptavina. "Ekki hefði verið hægt að halda gjaldskrá svona lágri ef skuldir Orkuveitunnar hefðu verið í meira mæli í verðtryggðum íslenskum krónum.  Hækkun gjaldskrár í raforkusölu til smásölu og heitu vatni um 10% hækkar EBITDU um 1,4 milljarða.  Horfa verður á þessa þætti þegar þolmörk eru metin," segir Anna.

Stærstur hluti erlendra lána OR er í evrum eða rúmlega 41 prósent. Vaxtastig Seðlabanka Evrópu hefur því umtalsverð áhrif á vaxtabyrði fyrirtækisins.

Myntsamsetning erlendrar lánakörfu OR  er annars eftirfarandi:

CAD                       1,87%

CHF                       20,48%

EUR                       41,38%

GBP                       4%

JPY                         10,46%

SEK                        6,93%

USD                       14,88%