Skiptum er loksins lokið á þrotabúi Leikfélags Íslands ehf. (LÍ) sem lýst var gjaldþrota fyrir átta árum.

Með þessum skiptalokum er endanlega settur punktur aftan við afar merkilega tilraun til að starfrækja öflugt einkarekið leikhús á Íslandi. Olli starfsemin um tíma miklum titringi meðal stóru leikhúsanna tveggja enda tókst LÍ að ná  til sín tugum þúsunda leikhúsgesta þrátt fyrir lítinn opinberan stuðning.

Greint var frá skiptalokum á vefútgáfu Lögbirtingarblaðsins miðvikudaginn 13. október sl.

Átta ára uppgjörsferli

Leikfélag Íslands ehf., kt. 670498-2049, Vonarstræti 3, Reykjavík var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 2. maí 2002.

Lýstar kröfur í búið námu samtals kr. 165.714.786. Var Páll Arnór Pálsson hrl. Skipaður bústjóri. Skiptum á búinu var ekki lokið fyrr en 16. apríl 2010 með úthlutun. Samkvæmt úthlutunargerðinni greiddust veðkröfur kr. 1.020.974 að fullu og kr. 107.916 upp í forgangskröfur sem voru kr. 18.158.537 eða 0,5686%. Lýstar almennar kröfur voru 146.535.275 og fékkst ekkert upp í þær.

Öflug menningarstarfsemi

Leikfélag Íslands hóf starfsemi 1996 og varð fljótt mjög áberandi í menningarlífi höfuðborgarinnar. Komu þar fjölmargir þjóðþekktir leikarar og leikstjórar við sögu.  Félagið efldist síðan mjög í ársbyrjun 2000 þegar Leikfélag Íslands, Hljóðsetning ehf. og Flugfélagið Loftur sameinuðust. Loftur hóf reyndar starfsemi sem einkarekið leikhús árið 1994. Í framhaldi sameiningarinnar var starfsemin rekin undir nafni Leikfélags Íslands í Loftkastalanum og Iðnó og var Magnúsar Geir Þórðarson þá leikhússtjóri en hann hefur undanfarin misseri getið sér gott orð við stjórn Borgarleikhússins.

Á árinu 2000 náði þetta einkarekna leikhús LÍ til sín 80.000 leikhúsgestum á sýningar félagsins. Voru forsvarsmenn félagsins því stórhuga og stefnt var að því að gera Leikfélag Íslands að mest sótta leikfélagi landsins sem jafnframt tengdist kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð sterkum böndum.

Uppgangur en fjárvöntun

Mikill uppgangur hjá félaginu kostaði samt sitt og fóru forsvarsmenn LÍ fram á árinu 2001 að ríkið og Reykjavíkurborg veittu fjárstyrki til starfseminnar til að jafna aðstöðumun gagnvart Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur. Var þar talin þörf á 50 milljóna króna styrk. Einnig var ákveðið að ráðast í hlutafjárútboð árið 2001 til að afla fjár til starfseminnar.

Mörg þekkt nöfn á bakvið starfsemina

Fyrir hlutafjárútboðið sem ákveðið var að ráðast í 2001 voru mörg mjög þekkt nöfn í hlutahafahópnum. Þeir voru; Ágúst Einarsson, Baltasar Kormákur, Breki Karlsson, Hallur Helgason, Ingvar Þórðarson, Íslenska útvarpsfélagið, Jóhann Sigurðsson, Jón Ingi Friðriksson, Karl Pétur Jónsson, Kaupþing, Kristján Ottó Andrésson, Magnús Geir Þórðarson, Sigurður Sigurjónsson, Stefán Hjörleifsson, Sæmundur Norðfjörð, Þórhallur Andrésson og Örn Árnason.

Þá sátu í stjórn ekki ómerkara fólk en Árni Oddur Þórðarson, Hallur Helgason, Stefán Hjörleifsson, Sæmundur Norðfjörð og Þorsteinn Jónsson. Var leikfélagið á þessum tíma með fimm fastráðna leikara, þau Eddu Björgvinsdóttur, Friðrik Friðriksson, Jakob Þór Einarsson, Sigurð Sigurjónsson og Örn Árnason.

Skemmst er frá að segja að tilraunir til að skapa Leikfélagi Íslands ehf. traustan fjárhagsgrundvöll mistókust. Hvorki fékkst nægjanlegt hlutafé né nægur stuðningur frá ríki og Reykjavíkur og fór félagið í þrot sem fyrr segir vorið 2002.