Skiptum er nú lokið á búi Skinnaiðnaðar hf. á Akureyri eftir tæplega átta ára skiptameðferð. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í september 2001 og lýstar kröfur í búið voru 347 milljónir króna. 115 milljónir króna komu upp í kröfur, aðallega kröfur utan skuldaraðar en ekkert upp í almennar kröfur. Skiptastjóri var Örlygur Hnefill Jónsson.

Var skráður á Vaxtalista Verðbréfaþings

Stjórn Skinnaiðnaðar óskaði eftir gjaldþrotaskiptum þar sem langvarandi erfiðleikar hefðu verið í rekstri samfara djúpri niðursveiflu sem ríkt hefði á helstu mörkuðum fyrir fullunnin skinn í heiminum. Við þetta hefði bæst óvissa um hráefnisöflun. Þetta kom fram í tilkynningu Skinnaiðnaðar til Verðbréfaþings, nú Kauphallarinnar, en hlutabréf félagsins voru skráð á Vaxtalista Verðbréfaþings.

Í tilkynningunni vegna gjaldþrotaskiptanna sagði ennfremur að rekstrarumhverfið sem ríkt hefði hér innanlands undanfarin misseri, einkum mjög hátt vaxtastig, hefði og reynst fyrirtækinu þungt í skauti. Á þessum tíma störfuðu um 120 manns hjá félaginu, sem var stofnað árið 1993.

Í síðasta uppgjöri fyrir gjaldþrot, hálfsársuppgjöri fyrir reikningsárið 2000-2001 sem birt var í apríl 2001, voru skuldir Skinnaiðnaðar samtals 747 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 7,7%. Tap félagsins fyrir afskriftir nam 5 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum reikningsársins, af 338 milljóna króna tekjum, sem þó höfðu vaxið úm 75%.

Bjartsýni fimm mánuðum fyrir þrot

Ormarr Örlygsson, sem í mars 2001 tók við starfi framkvæmdastjóra Skinnaiðnaðar af Bjarna Jónssyni, sagði í afkomutilkynningunni í apríl af afkoman á fyrri hluta rekstrarársins hefði verið svipuð því sem gert hefði verið ráð fyrir. Heimsmarkaðurinn fyrir mokkaskinn hefði hrunið haustið 1998 en smám saman verið að rétta úr kútnum og salan hefði aukist. Verð hefði líka smám saman verið að hækka og hann sagðist bjartsýnn um framhaldið og vænti þess að í lok árs yrði reksturinn orðinn nokkurn veginn í jafnvægi. Það gekk ekki eftir og félagið var lýst gjaldþrota í september sama ár, eins og áður sagði.

Endurreist með aðstoð Akureyrarbæjar, en dugði ekki til

Við gjaldþrot Skinnaiðnaðar hf. leysti Landsbankinn til sín eignir búsins og hélt rekstrinum áfram undir breyttu nafni. Um ári síðar var stofnað nýtt hlutafélag um reksturinn og að því stóðu m.a. Akureyrarbær, Landsbankinn og Kaldbakur. Erfiðleikarnir voru þó ekki að baki og árið 2005 var síðustu 40 starfsmönnum félagsins á Akureyri sagt upp og félagið hætti störfum um áramótin. Undir lok ársins hafði RÚV eftir Ormarri, sem þá var enn framkvæmdastjóri, að markaður hefði verið í lægð í hálft annað ár og að framleiðslan ætti erfitt með að keppa við gerviefni og svínarúskinn frá Kína. Þá hafi hátt gengi krónunnar bætt gráu ofan á svart.