Sænski bankinn Swedbank, sem jafnframt er stærsti erlendi bankinn með starfsemi í Eystrasaltsríkjunum, hefur nú hótað því að minnka verulega umsvif sín í Lettlandi ef umdeild aðgerð stjórnvalda þar í landi, sem helst felur það í sér að takmörk verði sett á það hversu mikið lánveitendur geta innheimt af útlánum sínum, verða að veruleika.

Eins og áður hefur verið greint frá hafa sænskir bankar lent í nokkrum erfiðleikum í Eystrasaltsríkjunum en umsvif þeirra hafa verið töluverð í þessum ríkjum undanfarin ár. Lettland hefur, líkt og Ísland, gengið í gegnum mikla efnahagserfiðleika og er margt skylt með ríkjunum eins og sjá má í tengdri frétt hér að neðan.

Lánin miðist við markaðsvirði fasteigna

Í úttekt Financial Times (FT) á málinu kemur fram að Swedbank, sem og aðrir sænskir bankar, hafi þolað miklar afskriftar á útlánum í Lettlandi en botninn taki úr verði þeim ekki heimilt að innheimta það sem eftir stendur. Tillaga stjórnvalda gengur út á það að höfuðstóll og afborganir húsnæðislána miðist við markaðsvirði fasteigna en ekki raunvirði upphaflegs láns eins og flestir þekkja. Þannig verði lánadrottnum aðeins heimilt að innheimta lánin samkvæmt markaðsvirði fasteignanna en ekki þeirrar lánveitingar, með áföllnum vöxtum, sem upphaflega var veitt.

FT hefur eftir Thomas Backteman, aðstoðarforstjóra Swedbank, að tillaga stjórnvalda gangi þvert gegn öllum reglum Evrópusambandsins auk þess sem allar fjármálastofnanir myndu endurskoða starfsemi sína í landinu.

„Ef þessar tillögur ganga eftir verður mjög erfitt fyrir okkur að halda áfram að veita lán til húsnæðiskaupa [í Lettlandi],“ segir Backteman í samtali við FT.

Stjórnvöld í Lettlandi hafa ítrekað að hér sé aðeins um hugmynd að ræða, þetta sé enn ekki orðið að pólitískri stefnu. Hins vegar þurfi að bregðast við miklum samdrætti í hagkerfinu, stjórnvöld búast við 18% samdrætti á næsta ári, og nauðsynlegt sé að gera almenningi kleift að standa í skilum á afborgunum lána. Fasteignaverð hefur hins vegar lækkað um 2/3 frá því það náði hámarki um áramótin 2007/2008. Það er því ljóst að afborganir almennings af húsnæðislánum yrðu aðeins brot af því sem almenningur skuldaði sænsku bönkunum vegna lánanna.

Þungt högg, en bankarnir myndu líklega standa

Í síðustu viku ákvað sænska ríkisstjórnin að auka lánveitingar sínar til banka þar í landi. Ákvörðunin tengist ekki erfiðleikum bankanna í Lettlandi en sænskir fjölmiðlar segja augljóst að enn sé beðið eftir því hversu þungur skellurinn verður fyrir alla sænsku bankanna vegna erfiðleika í Eystrasaltsríkjunum.

Í því samhengi má minna á að markaðshlutfall Swedbank, SEB og Nordea er rúmlega 50% í umræddum ríkjum, Eystlandi, Lettland og Litháen. Bæði stjórnendur bankanna, sem og ráðamenn í Svíþjóð, hafa ítrekað að bankarnir hafi undirbúið sig „undir það versta“ eins danska blaðið Berglingske Tidenda orðaði það í fréttaskýringu fyrir helgi en þar kom fram að afskriftir sænsku bankanna gætu jafnast á við að einn þeirra færi alveg í þrot.

Rétt er þó að hafa í huga að lánveitingar Swedbank í Lettlandi eru undir 5% af öllum útlánum bankans. Í tilfelli SEB og Nordea er hlutfallið um 3%. Financial Times minnir þó á að um umtalsverðar upphæðir geti verið að ræða og þrátt fyrir lítið hlutfall af heildarútlánum bankanna gætu miklar afskriftir valdið verulegum vandræðum. Líklegast sé þó að með hlutafjáraukningu og aðstoð sænskra seðlabankans geti bankarnir staðið af sér storminn.