Embætti sérstaks saksóknara yfirheyrði sjö einstaklinga og framkvæmdi húsleit á  þremur stöðum í gær í tengslum við rannsókn á ýmsum ætluðum lögbrotum sem áttu sér stað innan Landsbankans fyrir bankahrun. Á meðal þeirra sem hafa verið yfirheyrðir er Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans.

Á meðal þeirra mála sem eru til rannsóknar eru kaup á hlutabréfum í Landsbankanum af hálfu félaga sem héldu um kauprétti starfsmanna Landsbankans og lánveitingar til þeirra félaga. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um þessi félög í fréttaskýringu í maí 2009. Hún verður endurbirt í þremur hlutum á vef blaðsins í dag. Þetta er annar hluti.

Framandi félög látin kaupa mikið magn af bréfum í Landsbankanum

Átta aflandsfélög í eigu Landsbankans, sem stofnuð voru utan um kauprétti starfsmanna, voru látin kaupa alls 13,2% hlut í bankanum sem gerðu þau samanlagt að næststærsta eiganda hans. Öll félögin lutu stjórn æðstu stjórnenda Landsbankans án þess að smærri hluthafar, fjárfestar eða eftirlitsaðilar hefðu hugmynd um það, enda var þess aldrei getið í ársskýrslum né tilkynnt um það á markaði.

Öll félögin átta lutu stjórn helstu stjórnenda Landsbankans þó að ýmsir aðrir væru formlega settir í stjórn þeirra. Þetta kemur glögglega fram í skýrslutökum yfir Kristjáni G. Valdimarssyni, fyrrum forstöðumanni skattasviðs Landsbankans. Þar lýsti hann því "að fyrir aðalfund Landsbankans 9. febrúar 2007 hefði Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri farið þess á leit við sig að safna saman umboðum frá stjórnum erlendu fjárhagsfélaganna sem héldu samanlagt á 13,2% eignarhluta í bankanum og fara með atkvæðarétt félaganna á fundinum og þá einkum til að leggja starfskjarastefnu bankans lið. Samkvæmt Kristjáni var þetta gert og sagðist hann í samræmi við það hafa farið með atkvæðarétt félaganna á fundinum skv. umboði og greitt atkvæði á fundinum."

Því kom Kristján fram sem næststærsti hluthafi bankans á aðalfundi hans og greiddi atkvæði í krafti þess eignarhluta í takt við vilja stjórnenda bankans.