Í áritun óháðs endurskoðanda í nýbirtri ársskýrslu Sparisjóðs Keflavíkur er vakin athygli á því að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins uppfylli ekki skilyrði laga. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er 7,06% reiknað lögum samkvæmt, en lágmarkið er 8%. Um áramótin í fyrra var hlutfallið 22,18%. Í skýrslu stjórnar segir að Fjármálaeftirlitið hafi verið upplýst um þetta og að unnið sé að úrbótum. Fjármálaeftirlitið getur lögum samkvæmt gefið fjármálafyrirtækjum allt að sex mánaða frest til að uppfylla þessi skilyrði og getur framlengt þann frest um aðra sex mánuði.

Unnið að því að bæta gjaldeyrisjöfnuð

Meðal þeirra úrbóta sem stjórn sparisjóðsins nefnir í skýrslu sinni er að unnið sé að því að laga gjaldeyrisjöfnuð sparisjóðsins, en með setningu reglugerðar um miðjan desember í fyrra hafi afleiðuviðskipti þar sem króna sé í samningi gagnvart erlendum gjaldeyri verið gerð óheimil. Afleiðingin hafi orðið ójafn gjaldeyrisjöfnuður. Aðgerðir til að bæta eiginfjárhlutfallið hafi snúist um að færa útlán á milli gjaldmiðla og töluverður ávinningur hafi náðst nú þegar sem hafi bein áhrif á framvirka samninga til að jafna gjaldeyrisstöðuna og beðið sé eftir viðbrögðum.

Fram kemur í skýrslu stjórnar að takist sparsjóðnum að jafna gjaldeyrisjöfnuðinn að fullu lagi það eiginfjárhlutfallið um 3,12% í heild. Samkvæmt skýringu 43 í reikningunum hefur nú náðst sá árangur í þessu sem bætir eiginfjárhlutfallið um 0,92% og færi það því að öðru óbreyttu í 7,98%.

Vilyrði fyrir víkjandi láni

Þá segir í skýrslunni að fengist hafi vilyrði fyrir víkjandi láni að fjárhæð 350 milljónir króna sem myndi styrkja eiginfjárstöðuna um 0,38%. Með því næði sjóðurinn þá 8,36% eiginfjárhlutfalli segir í skýringu 43. Næðist allur sá ávinningur um gjaldeyrisjöfnuð sem nefndur er í skýrslu stjórnar færi eiginfjárhlutfall sjóðsins hins vegar í 10,56%.

Sótt um aðstoð frá ríkissjóði

Loks segir í skýrslu stjórnar að sótt hafi verið um aðstoð frá ríkissjóði samkvæmt neyðarlögum nr. 25/2008 sem miðist við 20% framlag miðað við eiginfjárstöðu í árslok 2007. Þetta geri um 5,1 milljarð króna og mundi hækka eiginfjárhlutfall sjóðsins um 5,5% gengi það eftir.

Eiginfjárhlutfallið í 13,83% eða jafnvel í 16%?

Í skýringum segir að gengi þetta eftir, auk þess árangurs sem náðst hefur um gjaldeyrisjöfnuð og að viðbættu víkjandi láni, yrði eiginfjárhlutfall sjóðsins 13,83%. Sé hins vegar gert ráð fyrir að allur ávinningurinn sem nefndur er um gjaldeyirsjöfnuð gangi eftir færi eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Keflavíkur í um 16%, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

Samvæmt skýrslu stjórnar og skýringum er staðan því þannig nú að eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Keflavíkur hefur batnað úr 7,06% frá áramótum í 7,98% við undirritun ársreikningsins, sem var 31. mars sl. Mestar líkur má telja á að hlutfallið fari að óbreyttu í 13,83% með stuðningi ríkisins. Hins vegar má telja vafasamt að annað sé óbreytt.

Tapaði 19 milljörðum fyrir skatta í fyrra

Í þessu sambandi verður að hafa í huga að tap sjóðsins í fyrra nam rúmum 19 milljörðum króna fyrir skatta og að rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja er erfitt um þessar mundir. Hafi taprekstur haldið áfram á fyrsta fjórðungi þessa árs má reikna með óhagstæðara eiginfjárhlutfalli en hér kemur fram.

Virðisrýrnun útlána og krafna nam 6,8 milljörðum króna í fyrra, sem er 6,6 milljarða króna aukning frá fyrra ári. Afskriftareikningur lána og krafna nam 7,5% af útlánum og ábyrgðum í lok síðasta árs, en var 1,6% ári fyrr.

Verulegar aðhaldsaðgerðir

Í fréttatilkynningu frá sjóðnum segir að gripið hafi verið til verulegra aðhaldsaðgerða í rekstri. Æðstu stjórnendur og verulegur hluti starfsmanna hafi gefið eftir hluta launa sinna og störfum hafi fækkað sem nemur 22 stöðugildum á sl. 12 mánuðum. Gengið verði enn lengra í aðhaldsaðgerðum á næstunni. Í þessu sambandi má hafa í huga að launagreiðslur sparisjóðsins hækkuðu úr um 520 milljónum króna árið 2007 í um 819 milljónir króna í fyrra, eða um 57%, og stöðugildum fjölgaði úr 101 í tæp 128. Hér þarf þó einnig að horfa til þess að í tölunum fyrir 2007 er ekki rekstrarkostnaður vegna tveggja smærri sparisjóða sem sameinaðir voru við Sparisjóðínn í Keflavík á árinu.

Næsti erlendi gjalddagi í maí 2010

Um lausafjárstöðu Sparisjóðsins í Keflavík segir að Íbúðalánasjóði hafi verið selt safn skuldabréfa og að samningar hafi náðst við erlenda lánardrottna. Sparisjóðurinn sé með tvö erlend sambankalán, annað hafi verið á gjalddaga þann 27. mars sl. en samkomulag hafi náðst um greiðslu að hluta og framlengingu að hluta. Næsti stóri gjalddagi á erlendu láni sé í maí á næsta ári, en erlendu sambankalánin nemi samtals 49 milljónum evra. Í tilkynningunni segir að ljóst sé að fjármögnun sparisjóða verði næstu misserin að mestu í formi innlána.

Um framtíðarhorfur segir í tilkynningu sjóðsins að mikil óvissa sé um þróun og horfur á næstu misserum. Því sé erfitt að spá fyrir með vissu um hversu hátt eiginfjárhlutfallið þurfi að vera. Áætlanir sjóðsins taki mið af þeim erfiðu aðstæðum sem framundan séu og stjórnin telji þær bæði trúverðugar og líklegar til árangurs.

Tengd skjöl:

Ársreikningur Sparisjóðsins í Keflavík í Kauphöllinni