Staða markaðsskuldabréfa í lok júli 2010 nam 1.764,8 milljörðum króna og jókst um 21,5 milljarða á milli mánaða. Í upphafi þessa árs nam staða markaðsverðbréfa um 1.497 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans. Staða markaðsskuldabréfa nam á sama tíma í fyrra tæpum 1.516 milljörðum króna og hefur staða þeirra þannig hækkað um tæpa 250 milljarða á milli ára.

Staða verðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um rúma 8 milljarða króna á milli mánaða í júlí og nam þá  um 46,5 milljörðum króna, samanborið við rétt rúma 20 milljarða á sama tíma í fyrra.

Stóða óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði hins vegar um rúma 11,6 milljarða á milli mánaða í júlí, mest allra markaðsskuldabréfa, en í lok júlí nam staða þeirra rúmum 590 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam staða óverðtryggðra ríkisbréf um 280,7 milljörðum króna og hafa því hækkað um tæpa 310 milljarða á milli ára, mest allra skuldabréfa.

Skráð bréf atvinnufyrirtækja hækkuðu um rúma 5,3 milljarða í júlí en í lok júlí nam staða þeirra tæplega 145 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam staða sömu bréfa um 253,3 milljörðum króna þannig að staða þeirra hefur minnkað nokkuð á milli ára, eða um rúma 108 milljarða. Lækkunin átti sér að mestu stað á fyrri hluta þessa árs en staða þeirra hefur þó hækkað lítillega í sumar.

Þá hækkaði staða íbúðabréfa um rúma milljarð á milli mánaða í júlí en staða þeirra var þá rúmir 741 milljarðar króna. Staða íbúðabréfa hefur þó hækkað um rúma 52 milljarða á milli ára.

Markaðsvíxlar hækkuðu um rúma 2,1 milljarða króna á milli mánaða í júlí en staða þeirra var í lok mánaðarins tæpir 74 milljarðar króna. Þá hefur staða markaðsvíxla lækkað um 14,5 milljarða á milli ára. Þar munar mestu um ríkisvíxla sem hafa lækkað um 12,7 milljarða á milli ára á meðan banka- og sparisjóðsvíxlar hafa lækkað um 1,7 milljarð króna en staða þeirra hefur ekkert breyst frá því í byrjun þessa árs.

Skráð hlutabréf hækka á milli ára

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu um rúma 8 milljarða á milli mánaða í júlí þegar staða þeirra nam rúmum 242,6 milljörðum króna. Þá hafa skráð hlutabréf hækkað um rúma 50 milljarða á milli ára. Til frekar upplýsinga þá hefur virði skráðra bréfa á aðallista Kauphallarinnar hækkað um 40,5 milljarða á milli ára á meðan virði bréfa á First North markaðnum hefur hækkað um 10 milljarða á milli ára.

Til gamans, ef gamans skyldi kalla, má taka fram að frá því í september 2008 hefur virði skráðra bréfa í Kauphöllinni lækkað um rúma 1.115  milljarða króna og frá því í júlí 2007, þegar gamla úrvalsvísitalan náði hámarki, hefur virði skráðra bréfa í Kauphöllinni lækkað um rúma 3.417 milljarða króna.