Í raun eru aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu (ESB) ekki enn hafnar þó að ESB hafi samþykkt að hefja viðræður.

Á næstum vikum um ESB koma sér saman um viðræðuramma. Þegar hann liggur fyrir og aðildarríkin hafa samþykkt hann, verður kallað til ráðherrafundar, eða ríkjaráðstefnu eins og það heitir, þar sem utanríkisráðherra Íslands verður á meðal þátttakenda. Á þeim fundi er aðildarviðræðum formlega ýtt úr vör en gera má ráð fyrir að sá fundur fari fram í haust, líkast til í október.

Þannig má segja að aðildarviðræður hefjist formlega. Þá mun samninganefnd Íslands ásamt sérfræðingum Framkvæmdastjórnar ESB fara yfir löggjöfina sem þarf að samræma til að Ísland geti gerst aðili að sambandinu, þ.e. íslensku löggjöfina annars vegar og löggjöf ESB hins vegar.

Í kjölfarið verður skilgreint á hvaða sviðum Íslendingar þurfa að aðlaga sína löggjöf eða þá leita eftir annars konar aðlögun eða sérlausnum.

Í samninganefndinni eiga sæti 18 manns. Þess utan eru starfræktir 10 vinnuhópar, sem fjalla um einstaka mál t.d. landbúnaðarmál, gengismál og fl., þar sem fulltrúar hagsmunahópa og ýmsir sérfræðingar úr einstaka ráðuneytum eiga sæti. Formenn allra 10 vinnuhópanna eiga sæti í aðalsamninganefndinni. Til viðbótar þessu eru tveir vinnuhópar sem fara eingöngu yfir EES löggjöfina.

Að sögn Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra í Brussel og aðalsamningamanns Íslands hafa þessir hópar komið saman misoft eftir málefnum, efnum og ástæðum. Þeir hafi farið yfir einstaka mál og metið hvaða atriði þurfi að leggja fram til frekari skoðunar. Þeirri vinnu á að vera lokið fyrir haustið.

Hins vegar hefur aðalsamninganefndin komið sjö sinnum saman. Nefndin hefur þegar fengið afhentar skýrslur úr undirhópunum auk þess sem ýmsir gestir hafa komið á fund nefndarinnar. Eins og gefur að skilja mun nefndin halda áfram að hittast innbyrðist eins og efni standa til.

Um þetta og margt fleira tengt umsókn Íslands að ESB er fjallað í viðtali við Stefán Hauk í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.