Helstu stjórnendur Íslenskra aðalverktaka (ÍAV) eignuðust helmingshlut í fyrirtækinu innan við þremur mánuðum eftir að svissneska verktakafyrirtækið Marti Contractors hafði yfirtekið verktakahluta þess.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu í dag að fyrrum eigendur ÍAV hafi eignast helmingshlut í fyrirtækinu á ný . Viðskiptablaðið fjallaði á sínum tíma ítarlega um endurskipulagningu fyrirtækisins. Fréttaskýring í fjórum hlutum um málið mun birtast á vef blaðsins í dag.Þetta er fyrsti hluti hennar.

Tekið yfir í mars og helmingur seldur í maí

Viðskiptablaðið greindi frá því 4. mars síðastliðinn að svissneska verktakafyrirtækið Marti Contractors myndi yfirtaka að fullu rekstur verktakahluta ÍAV. Formlega var síðan tilkynnt um yfirtökuna síðar sama dag. Fasteignaþróunarverkefni fyrirtækisins og þorri skulda þess voru skilin eftir hjá Arion banka, langstærsta kröfuhafa ÍAV. Verktakahlutinn var settur inn í nýtt félag, IP Verktaka ehf.

ÍAV-samstæðan skuldaði Kaupþing hátt um 23 milljarða króna fyrir bankahrun. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lítið sem ekkert hafi verið greitt af lánunum frá því í bankahruninu og því hafa þau safnað miklum vöxtum. Arion banki hefur því þurft að afskrifa milljarða króna vegna þessa.

Keyptu helming á um 400 milljónir

Í Fréttablaðinu í dag var svo skýrt frá því að Karl Þráinsson, forstjóri ÍAV, og Gunnar Sverrisson framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hafi hvor um sig keypt 25 prósenta hlut í ÍAV. Þeir voru meðal aðaleigenda ÍAV sem misstu hlut sinn til kröfuhafa í fjárhagslegri endurskipulagningu í mars. Marti Contractors á enn hinn helminginn.

Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskráar var hlutafé í IP Verktökum aukið um 399,5 milljónir króna. Þeir sem skráðu sig fyrir hinu aukna hlutafé voru GS eignarhaldsfélag (í eigu Gunnars Sverrissonar) og Þrákarl ehf. (í eigu Karls Þráinssonar). Því er ljóst að stjórnendurnir hafa eignast aftur helmingshlut í fyrirtækinu sem þeir höfðu tapað tæpum þremur mánuðum áður fyrir samtals um 400 milljónir króna.