Eftir þá verulegu styrkingu sem hefur orðið á gengi krónunnar í gær og í dag velta menn því fyrir sér hvort handvirk niðurfærsla hennar muni takast í því takmarkaða fleytingarumhverfi sem hún starfar í.

Vissulega greinir menn á um varanleika styrkingarinnar þó ljóst sé að útflutningur hafi verið verulega umfram innflutning undanfarna mánuði.

Með setningu umdeildra gjaldeyrislaga var ætlunin að tryggja að allur gjaldeyrir bærist til landsins enda hörð viðurlög við undanskotum frá því. Af viðtölum við útflytjendur að dæma virðast þeir ekki treysta sér í annað en að hlýta þessum reglum og skýrir það án efa innflæði gjaldeyris í augnablikinu.

Einnig hafa margir gripið til þess ráðs að losa um gjaldeyri af reikningum sínum þegar krónan byrjaði að styrkjast. ,,LÍÚ að selja Hagkaup," sagði einn viðmælandi Viðskiptablaðsins og gaf ekki mikið fyrir dýpt markaðarins.

Engum dylst að ætlunin er að kreista allan gjaldeyri út úr þeim sem eiga hann. Því eru útflutningsfyrirtækin nú að skipta sínum gjaldeyri í krónur áður en krónan styrkist enn frekar. Þegar gjaldeyrissjóðirnir hafa þannig verið byggðir upp er væntanlega ætlunin að slaka aðeins á hömlunum.

En í leyni bíður villidýrið - krónubréf og aðrar erlendar kröfur sem bíða þess að fara út. Engin leið er að segja hvort hátt vaxtastig hér dugar til að halda þeim lengur þó vextir séu horfnir víðast hvar.

Það er mjög erfitt að segja til um hvenær þetta erlenda skammtímafjármagn yfirgefur landið eða hvernig. Seðlabankinn stjórnar því alfarið með reglum sínum, og þeir sérfræðingar sem talað var við efa að þeir séu yfir höfuð búnir að fastsetja sér tímasetningu á hvenær þeim höftum verður aflétt.

Haldi krónan áfram að styrkjast út árið gætu þeir farið að aflétta einhverjum hömlum strax í upphafi næsta árs, og ef til vill hleypa einhverjum útlendingum út úr krónustöðum sínum í gegn, t.d. í gegn um sérstök uppboð. Það ferli verður vandasamt og spurning hvaða áhrif það hefur á krónuna.

Á sama tíma verður erlendur markaður (e. off-shore) væntanlega meira og minna lokaður þar til helstu höftum verður aflétt. Það verða einfaldlega varla neinir kaupendur að krónum þar meðan útflytjendum (og öðrum Íslendingum) er gert að standa við skilaskylduna.