Kosningabaráttan er hafin af fullum krafti í Bretlandi þó Gordon Brown forsætisráðherra sé enn ekki búinn að boða til kosninga. Flestir telja að það muni hann gera innan tíðar og gera flestir ráð fyrir að þær verði haldnar hinn 6. maí, en lögum samkvæmt má hann ekki boða til þeirra síðar en 3. júní.

Flestir eru sammála um að þetta verði sögulegar kosningar, margir segja þær mikilvægustu kosningar í Bretlandi frá 1979, þegar Margaret Thatcher komst til valda. Verkamannaflokkurinn hefur verið lengi við völd, í 13 ár, en erindi hans er að mestu þrotið og víðtæk vantrú á því að flokkurinn sé vandanum vaxinn. Þær raddir heyrast enda víða að hann sé vandinn og þá ekki síst leiðtogi flokksins, Íslandsvinurinn Gordon Brown. Þegar tæpast hægt að gera of mikið úr óvinsældum Gordons Brown í Bretlandi. Samkvæmt skoðanakönnunum eru Bretar býsna einhuga um fordæmingu á ríkisstjórn hans og fyrirrennara hans.

Efnahagshamfarirnar eru tengdar Brown persónulega; hann var áður fjármálaráðherra og gumaði af því að hafa skapað nýjan efnahagslegan veruleika, þar sem sveiflur, uppgangur og kollsteypur væru liðin tíð. Við bætist að almannaþjónusta þykir hafa orðið í senn dýrari og lélegri, umræða um siðrof og þjóðfélagslega upplausn hefur orðið æ háværari, innviðir hafa verið vanræktir, atvinnuleysið svíður, meira þykir halla á borgararéttindi nú en í manna minnum, alþjóðleg áhrif Bretlands hafa dvínað, hernaðurinn í Írak og Afganistan hefur sætt ámæli um leið og stjórnin er sökuð um að láta herinn grotna niður, lögreglan þykir ekki lengur valda hlutverki sínu eins og glæpatölfræði bendir til, stjórnin er sökuð um að hafa viljandi aukið á innflytjendavandann (í nafni fjölmenningar) og síðast en ekki síst eru stjórnmálamenn enn að bíta úr nálinni með hneyksli liðins árs vegna endurgreiðslna til þingmanna fyrir útlögðum kostnaði. Það bitnar meira á stjórnarflokknum en stjórnarandstöðunni, þó skúrkarnir hafi verið í svipuðum hlutföllum í öllum flokkum.

Það er því máske ekki undarlegt að David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, leggi málin þannig upp fyrir væntanlegum kjósendum, að í vor standi valið milli sín og fimm ára þrautagöngu í viðbót undir Brown.

Hverfandi forskot íhaldsmanna

Hitt er því undarlegra að forskot Íhaldsflokksins í skoðanakönnunum, sem nam um 20% á síðasta ári, er sáralítið og undanfarna daga hefur dregið mjög saman með flokkunum þrátt fyrir að hvert áfallið á fætur öðru hafi dunið á Brown, allt frá ásökunum um einelti hans og fantaskap í garð starfsfólks í Downingstræti 10 til þess að Alistair Darling, fjármálaráðherra og annar Íslandsvinur, kallaði spunameistara forsætisráðherra síns útsendara hins illa! Samt sem áður gefa kannanir til kynna að aðeins 2-3% skilji flokkana að.

Þrátt fyrir óánægju breskra kjósenda með hlut sinn og ríkisstjórn Brown bendir flest til þess að kosningaþátttaka í vor verði dræm. Vantrú kjósenda á stjórnmálakerfinu hefur ekki dalað að ráði eftir hneykslin í þinginu, sem upp komust á liðnu sumri, og það mun vafalaust hafa áhrif. Breska kosningakerfið, þar sem allir sitja í einmenningskjördæmum og atkvæði greidd öðrum en sigurvegaranum falla dauð, er mjög viðkvæmt fyrir sveiflum, en hins vegar vinnur áhugaleysi jafnan með sitjandi meirihluta. Til þess að auka enn á óvissuna eru svo óvenju margra nýrra þingmanna að vænta, en afleiðing spillingarhneykslisins er að fjölmargir þingmenn hafa afráðið að sæta ekki dómi kjósenda oftar. Það mun sjálfsagt fremur vera vatn á myllu stjórnarinnar en stjórnarandstöðunnar. Það er því alls ekki útilokað að stjórn Brown haldi velli, þó frekar sé það ósennilegt.

Samsteypustjórn eða minnihlutastjórn?

Kosningafræðingar og stjórnmálaskýrendur hafa að undanförnu gefið þriðja kostinum aukinn gaum, sumsé að ríkisstjórnin falli en að Íhaldsflokkurinn nái ekki meirihluta. Stjórnarmynstrið myndi því velta á því hvorum flokknum frjálslyndir demókratar vilja vinna með eða verja vantrausti. Viðbrögð á mörkuðum sýna hins vegar að í City óttast menn þennan kost mjög, en samsteypustjórnir eru óþekkt fyrirbæri í Westminster. Ríkisfjármálin verða hvaða ríkisstjórn sem er afar erfið, en á markaðnum telja menn greinilega enn ósennilegra að samsteypustjórn nái að greiða úr þeim með viðunandi hætti.

Skuldir hins opinbera eru ógnvænlegar (sem hlutfall af landsframleiðslu eru þær jafnmiklar og í Grikklandi!) og þó Bretland hafi sögulega haft meira skuldaþol en flest önnur ríki getur Englandsbanki ekki endalaust keypt ríkisskuldabréf til þess að halda vöxtunum á þeim niðri. Í City vonast menn greinilega eftir sigri íhaldsmanna og það á svo sem við víðar, því lóðbeint samhengi hefur verið milli hækkandi gengis Verkamannaflokksins í könnunum og fallandi gengis pundsins.

Við blasir að David Cameron og félögum hans í Íhaldsflokknum hefur misheppnast að ná til kjósenda með þeim hætti sem þarf til þess að vinna kosningarnar. Öfugt við Gordon Brown er Cameron vel liðinn af alþýðu manna og sú skoðun er almenn að hann sé drengur góður. Það er hins vegar greinilega ekki nóg til þess að fylkja þjóðinni um sig og inn í kjörklefann.

Allt sama tóbakið

Vandi íhaldsmanna er fyrst og fremst sá að hinn almenni kjósandi (og raunar margur stjórnmálaskýrandi einnig) hefur ekki ljósa hugmynd um það fyrir hvað Cameron stendur, hver séu grundvallargildi hans og helstu stefnumið. Kosningabarátta þeirra hefur verið einstaklega þokukennd hvað það varðar og helstu leiðarstefin fengin að láni frá Obama Bandaríkjaforseta um vonir og breytingar. Það kann að hafa gengið vel í fólk vestanhafs fyrir rúmu ári (þó vonirnar séu að bresta og breytingarnar láti á sér standa) en breskir kjósendur eru ekki ginnkeyptir fyrir slíku orðagjálfri. Þeir vilja vita hverju eigi að breyta og hvers sé að vænta.

Cameron og hinn þröngi hópur í kringum hann eiga rætur að rekja til stefnumótunarstofu Íhaldsflokksins og eru allt vanir fagmenn í pólitík. Kannski of vanir og of miklir fagmenn. Eftir þrjá kosningaósigra í röð ákváðu þeir greinilega að finna allar misfellur í ásýnd flokksins og slípa þær af, en fyrir vikið tók flokkurinn óhjákvæmilega meira mið af andstæðingum flokksins en grundvallarsjónarmiðum sínum.

Eilíf gagnrýni Verkamannaflokksmanna um að íhaldsmenn ættu engin ráð eða þrár betri og heitari en að skera velferðarríkið niður við trog ólu af sér opinbera umræðu þar sem há ríkisútgjöld urðu mælistikan á góða stjórnarhætti og íhaldsmenn drógu ekki af sér í keppninni við vinstrimenn um að lofa endalausu gulli og gersemum úr ríkissjóði. Hvernig ætti að afla þess var látið liggja milli hluta í góðærinu endalausa, en þegar skellurinn kom vildu íhaldsmenn ekki tala um niðurskurð frekar en andstæðingar þeirra handan gangsins í þinghúsinu.

Cameron í tímaþröng

Undir venjulegum kringumstæðum væru það íhaldsmenn, sem myndu boða uppbyggilega efnahagsstefnu og aðhaldssemi í ríkisfjármálum, en þeir láta það að mestu vera, þannig að þeir kjósendur sem hafa fengið sig fullsadda á bóluhagfræði Brown vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér. Þetta hefur valdið verulegri ólgu í grasrót Íhaldsflokksins, sem kvartar ennfremur undan því að Cameron og sveinar hans einangri sig um of, þeir hlusti ekki á raddir almennra kjósenda, almennra flokksmanna eða almennra þingmanna. Til þessa hefur Cameron lítt hirt um þá kergju, en hin arfaslaka staða í skoðanakönnunum virðist hafa hrist nokkuð upp í forystusveitinni. Sjálfsagt duga honum tveir mánuðir til þess að bæta úr því. Hitt er allsendis óvíst hvort Cameron duga tveir mánuðir til þess að koma kjósendum í skilning um það hver hann sé og hvert hann vill leiða þjóðina. Eða að þeim líki það sem hann hefur að bjóða nógu vel til þess fela honum forystuna.