Svíar undirbúa nú þjóðnýtingu að einhverjum hluta á bönkum sínum en vandræði þeirra má rekja til efnahagshruna Eystrasaltsríkjanna.

Þetta kemur fram í úttekt breska blaðsins The Daily Telegraph en blaðið segir mörg norræn og vestræn ríki óttast sömu örlög og gömlu kommúnistaríkin úr austurblokkinni. Þá hafa sænskir bankar verið umsvifamiklir í Eystrasaltsríkjunum undanfarin ár og efnahagslegir erfiðleikar í ríkjunum hafa gert þeim mjög svo erfitt fyrir.

Fram kemur að sænskir bankar hafa lánað um 75 milljarða Bandaríkjadali í Eystrasaltsríkjunum, þá helst í gegnum Swedbank og SEB.

Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar segir í samtali við Telegraph að sænska ríkið muni kaupa hluti í þeim bönkum sem lenda í verulegum erfiðleikum. Hann ítrekaði þó að um kaup væri að ræða, ekki neyðarlán, þannig að ríkið myndi taka yfir ákveðna hluta í bönkunum.

„Við viljum hafa þetta skýrt þannig að fólk viti hvernig hlutirnir geta orðið,“ segir Borg.

„Ef bankarnir hafa tapað útlánum sínum, þar sem þeir græddu vel áður, og biðja okkur um aðstoð er ljóst að hluthafarnir munu fyrst og fremst taka þeim afleiðingum. Það er alveg á hreinu að við munum einungis fjárfesta í bönkum, sem uppfylla ekki lögbundin skilyrði um eiginfjárhlutfall, gegn því að við [ríkið] eignumst hlut í þeim.“

Ekki skánar ástandið

Hakan Berg, svæðisstjóri Swedbank í Eystrasaltsríkjunum, segir að bankinn muni þola útlánatap upp að verulegu marki. Hann segir að bankinn hafi framkvæmt álagspróf á sjálfum sér þar sem gert var ráð fyrir verstu mögulegri útkomu og það muni ekki fella bankann.

Það sem gerði þó illt verra og útlitið dekkra, að sögn Telegraph, er að á fimmtudag hækkuðu dagvextir í Lettlandi í 140% en viðmælendur blaðsins meta það sem svo að það gefi til kynna að gjaldmiðill landsins sé við það að hrynja. Skuldatryggingaálagið í landinu mælist nú 750 punktar eftir misheppnað skuldabréfaútboð yfirvalda í lok maí.

Stjórnvöld í Lettlandi hafa lýst því yfir að þau þurfi nauðsynlega aðstoð, og það strax, frá bæði Evrópusambandinu (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Rétt er þó að geta þess að búið var að gera samkomulag milli Lettlands og AGS en slitnað hefur upp úr því samstarfi þar sem stjórnvöld í Lettlandi voru ekki tilbúin að gera samkomulag við sjóðinn sem uppfyllti kröfur um áframhaldandi samstarf. Snemma í vor lá fyrir áætlun um að AGS myndi veita Lettlandi 7,5 milljarða dala gjaldeyrislán en ekkert hefur orðið af þeirri greiðslu.

Ekki bara Svíþjóð sem er í hættu

En þá aftur að Svíþjóð – og öðrum Evrópuríkjum sem gætu skaðast ef illa fer í austurblokkinni. Það liggur ekki ljóst fyrir hversu alvarleg staða sænsku bankanna verður. Rétt er þó að hafa í huga að það eru ekki bara sænskir bankar sem hafa lánað fé til Eystrasaltsríkjanna því í úttekt Telegraph kemur fram að bankar í V-Evrópu hafa lánað fyrrverandi kommúnistaríkjunum í austurblokkinni gífurlegt fjármagn, eða um 1.600 milljarða Bandaríkjadali.

En það er ekki bara Svíþjóð sem er viðkvæmt fyrir hruni í einhverju af ríkjum austurblokkarinnar. Austurrískir gætu farið mjög illa út úr efnahagshruni ríkjanna en útlán þeirra til mið-Evrópu, Úkraínu og Eystrasaltsríkjanna nemur allt að 70% af landsframleiðslu Austurríkis. Útlán Svíþjóðar til Eystrasaltsríkjanna nemur 22% af sænskri landsframleiðslu.

Í áhættuskýrslu frá Danske bank kemur fram að Austurríki gæti tapað verðmætum sem nema allt að 11% af landsframleiðslu, Svíðþjóð 6%, Belgía tæpum 4% og Holland rúmlega 2% ef illa fer í austurblokkinni.

„Þetta smitast milli landa. Engum hefði dottið í hug að efnahagshrun á Íslandi gæti komið vandamálum af stað í Ungverjalandi, en það gerðist engu að síður og getur gerst aftur,“ segir Lars Christensen, hagfræðingur hjá Danske Bank.

Financial Times fjallar einnig lítillega um málið og bætir því við að sænskir bankamenn vakti nú Eystrasaltsríkin hvað þeir geta og allt kapp verði lagt á að koma í veg fyrir hrun í ríkjunum. Blaðið minnist þó á að Svíar séu ekki einir í baráttunni þar sem aðrir evrópskir bankar eiga mikið af útistandandi kröfum austan megin í Evrópu.