Gera má ráð fyrir að á morgun verði gengi frá samkomulagi milli bandarískra og svissneskra stjórnvalda vegna bandarískra viðskiptavina svissneska bankans UBS.

Eins og áður hefur verið greint frá hafa yfirvöld beggja ríkja átt í viðræðum í um hálft annað ár en bandarísk yfirvöld hafa farið fram á að fá upplýsingar um bandaríska viðskiptavini bankans en talið er að með því að stunda viðskipti við UBS hafi þeir flutt fjármagn til Sviss og þannig forðast skattgreiðslur vestanhafs.

Viðræðurnar hafa þó hvað eftir annað farið stál í stál þar sem Svisslendingar hafa ekki vilja gefa eftir af sinni frægu bankaleynd. Það, að raska bankaleyndinni, getur að sögn Bloomberg fréttaveitunnar raskað öllu bankakerfi Sviss sem að stórum hluta er byggt upp á því að viðskiptavinir svissneskra banka njóti algjörar bankaleyndar.

Reuters fréttastofunnar greinir þó frá því í dag að UBS verði skylt að afhenta bandarískum yfirvöldum upplýsingar um tæplega 5.000 viðskiptavini en talið er að bandarískir viðskiptavinir bankans séu um 52.000.

Sviss gæti skaðast meira en UBS

Christian Stark, greiningaraðili hjá Cheuvreux segir í samtali við Reuters að þó svo að UBS láti upplýsingarnar af hendi verði það varla skaðlegt fyrir bankann. Hann segir þó mikilvægara að hafa í huga hversu mikið svissneska bankakerfið kann að skaðast vegna málsins.

Stark vitnar í frétt Wall Street Journal (WSJ) frá því í síðustu viku þar sem fram kemur að auðugir Bandaríkjamenn notist við í það minnsta 10 banka í Evrópu til að stýra fjármagni sínu. Fyrir utan UBS má þar nefna Credit Suisse, Julius Baer, Zuercher Kantonalbank og Union Bancaire Privee. Í frétt WSJ kemur þó fram að ekki sé alltaf um ólöglega gjörninga að ræða. Almenningi sé heimilt að flytja fjármagn úr landi, svo lengi sem það gerir grein fyrir því, og nýta það í eignastýringu í öðrum löndum.

Jafngildir afnámi svissneskrar bankaleyndar

Ónafngreindur viðmælandi Financial Times, sem starfa á Wall Street, segir að ef svissneskir bankar verði neyddir til að láta upplýsingar af hendi megi í raun segja að svissneska bankaleyndin heyri sögunni til. Við það glata allir svissneskir bankar trausti alþjóðafjárfesta sem leita muni annað með fjármagn sitt.

„Það er ekki eins og önnur ríki geti ekki tekið upp bankaleynd að hætti Sviss,“ segir viðmælandinn.

„Í raun er Sviss að líða fyrir pirring bandarískra stjórnvalda vegna skattaskjóla. Það er undir svissneskum yfirvöldum hvort þau ætla að standa með bankakerfi sínu eða ekki. Ef þarlendir bankar þurfa að nú að opinbera upplýsingar um viðskiptavini sína jafngildir það afnámi bankaleyndar. Það geta allir sagt sér hvað það þýðir fyrir bankakerfið þar í landi.“