Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á fundi í Seðlabankanum í gær að erfitt væri að segja hvort krónan hefði styrkst undanfarið vegna þess að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar. Gagnvart evrunni hefur krónan styrkst um 4,7% síðastliðnar sjö vikur. Styrking krónunnar voru helst rök peningastefnunefndar fyrir lækkun vaxta Seðlabankans um 0.5 prósentur í gær.

Björn Valur Gíslason þingmaður Vinstri grænna segir á Pressunni í dag að ef ekki „væri nema fyrir pólitískt kjarkleysi að viðbættum pólitískum loddaraskap forseta Íslands, væru vextir hér á landi mun lægri en þeir eru í dag...".  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Icesave-deilunni er kennt um það sem miður fer hér á landi. Margir, sem Viðskiptablaðið hefur rætt við undanfarnar vikur, eru á þeirri skoðun að synjun forseta Íslands hafi frekar styrkt krónuna en veikt hana. Það hljóti að skipta máli í því sambandi að þeir samningar sem nú liggi á samningaborðinu feli í sér tugmilljarða lægri vaxtagreiðslur til útlanda. Varla veikir sú staðreynd krónuna?

Pólítísk yfirlýsing fyrst og fremst

Þótt Már Guðmundsson sé ekki afgerandi í svari sínu, enda hefur hann áður sagt að óvissan í kringum Icesave sé af hinu slæma, þá aftekur hann ekki að höfnun forsetans á lögunum hafi styrkt krónuna. Enda er tengin þar á milli þótt erfitt sé að greina hve mikil áhrifin eru. Og vextir voru lækkaðir um 0,5%. Það sem Björn Valur er að halda fram er úr takti við þá stefnu sem peningastefnunefnd hefur mótað í lækkun stýrivaxta og þau viðmið sem notast er við í rökstuðningi nefndarinnar. Þessar fullyrðingar eiga sér veika stoð í raunveruleikanum og eru fyrst og fremst notaðar til að koma pólitísku höggi á forsetann.

Endurfjármögnun vegur þyngra

Már sagði að höfnun Icesave gæti skipt máli í styrkingarferli krónunnar en möguleikar á endurfjármögnun skulda skiptu meira máli, að því er virtist. „Eins og þið vitið þá þýða hærri skuldir að öðru jöfnu lægra gengi. En það er annað sem er verra en háar skuldir. Það er að geta ekki endurfjármagnað sínar erlendu skuldir. Hingað til hefur okkur virst að þau áhrif, í tilfelli Íslands og reyndar margra annarra landa, séu sterkari," sagði seðlabankastjóri á fundi í Seðlabankanum í gær.

„Það er erfitt um þetta að segja. Ef við lítum á skuldatryggingarálagið þá hækkar það mjög mikið í framhaldi af synjuninni. En síðan það fóru að berast fréttir af því að samningaviðræður væru hafnar á ný þá lækkaði það, jafnvel þótt skuldatryggingarálag annars staðar væri ekki að lækka. Þannig að samkvæmt þessu virðist það vera að markaðurinn leggi mest upp úr því að málið leysist og sé að leysast fremur en hvort það sé þessi upphæðin eða hin,“ sagði Már Guðmundsson.