Fjármálaráðherra, forseti Alþingis, allir þingmenn Hreyfingarinnar og báðir þingflokksformenn stjórnarflokkanna eru meðal þeirra þingmanna sem myndu falla af þingi er gengið yrði til kosninga nú.

Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúls Capacent er núverandi stjórnarmeirihluti kolfallinn ef gengið yrði til kosninga nú. Það er nokkuð í takt við Þjóðarpúlsinn frá því í febrúar. Viðskiptablaðið hefur undir höndum niðurstöður Þjóðarpúlsins, brotið niður eftir kjördæmum, sem gerir það að verkum að hægt er að reikna út þingmannafjölda flokkanna.

Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og VG, tapa samanlagt 14 þingmönnum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 12 þingmönnum og Samstaða (flokkur Lilju Mósesdóttur) bætir við sig sex þingmönnum. Miðað við Þjóðarpúlsinn í febrúar hefði stjórnarmeirihlutinn tapað 13 þingmönnum þannig að enn bætist í fylgistap þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn.

Það er vinsæll samkvæmisleikur í pólitíkinni að velta því upp hvaða þingmenn myndu detta af þingi ef gengið yrði til kosninga nú og hvaða þingmenn kæmu nýir inn. Eina leiðin er að miða við framboðslista flokkanna fyrir kosningarnar 2009 þó eðli málsins samkvæmt megi gera  ráð fyrir að þeir myndu breytast nokkuð ef gengið yrði til kosninga nú.

Sjálfstæðisflokkurinn: +12 þingmenn

Til upprifjunar þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 38% fylgi á landsvísu í mars, og er stærstur í öllum kjördæmum. Í kosningunum 2009 fékk Sjálfstæðisflokkurinn aðeins fyrsta þingmann í einu kjördæmi, NV-kjördæmi. Flokkurinn eykur heldur við fylgi sitt á milli mánaða en í febrúar mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 33% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkur að vígi í Suðurkjördæmi og mælist þar nú með rúmlega 44% fylgi. Flokkurinn myndi bæta við sig tveimur þingmönnum í kjördæminu, Írisi Róbertsdóttur og Kjartani Ólafssyni, og fengi þar fimm þingmenn.

Flokkurinn fengi, miðað við Þjóðarpúlsinn, einnig rúmlega 44% fylgi í SV-kjördæmi og myndi því bæta við sig þremur þingmönnum. Það eru þau Óli Björn Kárason, Rósa Guðbjartsdóttir og Víðir Smári Petersen. Til gamans má geta þess að Víðir Smári hefur tekið sæti sem varamaður á þessu kjörtímabili og er það með yngsti þingmaðurinn í sögu þjóðarinnar. Flokkurinn fengi sjö þingmenn í kjördæminu.

Sjálfstæðisflokkurinn myndi einnig bæta við sig þremur þingmönnum í Reykjavík Suður, og fengi þá sex þingmenn. Þeir þingmenn sem myndu koma inn eru allt konur, þær Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Sigríður Á. Andersen og Gréta Ingþórsdóttir. Í Reykjavík Norður myndi flokkurinn bæta við sig tveimur þingmönnum, Sigurði Kára Kristjánssyni og Ástu Möller.

Í NV-kjördæmi myndi flokkurinn bæta við sig einum þingmanni, Eyrúnu I. Sigþórsdóttur og í NA-kjördæmi, sem þó er veikasta kjördæmi flokksins þar sem hann fengi aðeins tæplega 24% fylgi, myndi Arnbjörg Sveinsdóttir koma ný inn.

Samfylkingin: -8 þingmenn

Samfylkingin fengi 17,5% fylgi á landsvísu skv. Þjóðarpúlsinum en flokkurinn mældist með 18,7% fylgi í febrúar. Flokkurinn myndi í dag missa átta þingmenn úr öllum kjördæmum.

Í febrúar hefði Samfylkingin haldið sínum fjórum þingmönnum í Reykjavík Suður en myndi í dag missa einn. Sá þingmaður heitir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og er forseti Alþingis. Flokkurinn myndi líka missa einn þingmann í Reykjavík Norður, sem þó er sterkasta kjördæmi flokksins, Mörð Árnason sem tók sæti Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem sagði af sér fyrr á kjörtímabilinu.

Þá myndi Samfylkingin tapa tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi. Björgvin G. Sigurðsson myndi einn halda sínu sæti en þau Oddný G. Harðardóttir , fjármálaráðherra, og Róbert Marshall myndu detta út af þingi í þessu veikasta kjördæmi Samfylkingarinnar.

Mesta fylgishrun á milli mánaða kemur þó til í SV kjördæmi þar sem flokkurinn fengi aðeins 15% fylgi í dag. Til upplýsinga má geta þess að Samfylkingin fékk rúmlega 32% fylgi í kjördæminu í síðustu kosningum. Í SV-kjördæmi myndu Lúðvík Geirsson og Magnús Orri Schram , þingflokksformaður Samfylkingarinnar, detta af þingi. Lúðvík tók sæti Þórunnar Sveinbjarnadóttur sem sagði af sér þingmennsku á síðasta ári. Magnús Orri var að vísu í sæti fyrir neðan Þórunni en rétt er að miða við að hann hafi færst upp um eitt sæti með afsögn Þórunnar. Í raun skiptir það engu máli nú þar sem þeir myndu í dag báðir detta af þingi.

Í NA-kjördæmi fengi Samfylkingin tvo þingmenn kjörna í dag, sem þýðir að og Jónína Rós Guðmundsdóttir myndi detta af þingi. Flokkurinn jók fylgi sitt lítillega á milli mánaða í mars en í febrúar hefði Sigmundur Ernir Rúnarsson einnig fallið af þingi. Samfylkingin fengi líka bara einn þingmann í NV-kjördæmi sem þýðir að Ólína Þorvarðardóttir myndi falla af þingi. Hið sama átti við í febrúar og síðan þá hefur fylgið lækkað um tæp 2% þannig að möguleikar Ólínu á endurkjöri fara þverrandi ef fer sem horfir.

Vinstri grænir: - 6 þingmenn

Þingmannastaða Vinstri grænna er öllu flóknari eins og áður hefur verið greint frá. Flokkurinn fékk 14 þingmenn kjörna í síðustu kosningum, og hafði aldrei fengið jafn marga. Þingflokk VG í dag skipa þó aðeins 12 manns, þar sem þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir hafa gengið úr þingflokknum. Vinstri grænir hrepptu þó Þráinn Bertelsson úr Hreyfingunni í þingflokk sinn á móti.

VG fengi í dag 11% fylgi á landsvísu en fékk í síðustu kosningum tæplega 22% fylgi. NA-kjördæmi, kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar formanns VG, er sem fyrr sterkasta vígi flokksins en þar myndi flokkurinn engu að síður missa Björn Val Gíslason , þingflokksformann VG einn helsta bandamann formannsins, út af þingi.

Flestum þingmönnum tapa Vinstri grænir í NV-kjördæmi. Samkvæmt framboðslista síðustu kosninga myndu þau Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ásmundur Einar falla út af þingi, eða öllu heldur hver sá sem fylla myndi hans skarð á framboðslistanum.

Aðeins í SV-kjördæmi myndi þingmannafjöldi VG haldast sá sami þannig að þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, myndu halda sínum sætum. Í febrúar var Ögmundur þó úti og fylgi flokksins í kjördæminu hefur lækkaði lítillega á milli mánaða. Reglur um uppbótarþingmenn myndu þó gera það að verkum að Ögmundur héldi sæti sínu.

Þá myndi VG tapa einum þingmanni úr sitthvoru Reykjavíkurkjördæminu. Í Reykjavík Suður myndi Lilja Mósesdóttir (eða hver sá sem myndi fylla hennar skarð) tapa sæti sínu og í Reykjavík Norður myndi Álfheiður Ingadóttir detta út.

Þá vekur athygli að ef gengið yrði til kosninga nú myndu Vinstri grænir ekki fá neinn þingmann kjörinn í Suðurkjördæmi, en Atli Gíslason var eini þingmaður flokksins í kjördæminu. Hann er sem kunnugt er ekki lengur í þingflokki VG.

Framsókn: Sami þingmannafjöldi

Framsóknarflokkurinn fengi í dag 13% fylgi á landsvísu og tapar lítillega fylgi á milli mánaða. Flokkurinn myndi þó halda sama þingmannafjölda, eða níu þingmönnum. Sterkasta vígi Framsóknarflokksins er sem fyrr NV-kjördæmi þar sem flokkurinn fengi tæplega 26% fylgi.

Framsóknarflokkurinn hefur bætt fylgi sitt verulega í Suðurkjördæmi og myndi í dag bæta við sig einum þingmanni, Birgi Þórarinssyni. Flokkurinn myndi halda sama þingmannafjölda í öllum öðrum kjördæmum, nema í Reykjavík Suður þar sem Vigdís Hauksdóttir myndi falla af þingi. Rétt er að rifja upp að fylgi flokksins er veikast í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og í febrúar var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, fallinn af þingi skv. Þjóðarpúlsinum. Hann heldur þó þingsæti sínu nú.

Hreyfingin: Allir þingmenn úti sem fyrr

Borgarahreyfingin fékk fjóra þingmenn kjörna í síðustu kosningum. Nú tilheyra þrír þeirra, þau Birgitta Jónsdóttir (Reykjavík-suður), Þór Saari (SV-kjördæmi) og Margrét Tryggvadóttir (S-kjördæmi), Hreyfingunni - en einn þeirra, Þráinn Bertelsson (Reykjavík-norður), Vinstri grænum. Öll myndu þau falla út af þingi ef kosið yrði nú. Fylgi Hreyfingarinnar er varla mælanlegt, nema þá helst í Reykjavík þar sem flokkurinn er með tæplega 5% fylgi.

Framtíð Bjartrar framtíðar ekki svo björt?

Miðað við Þjóðarpúlsinn í febrúar hefði Björt Framtíð, sem er afsprengi Besta flokksins leitt af Guðmundi Steingrímssyni, fengið einn mann kjörinn í Reykjavík Norður. Flokkurinn mælist aðeins með 4,7% fylgi á landsvísu og fengi engan þingmann. Rétt er þó að minna á að ef flokkurinn fer yfir 5% á landsvísu fara reglur um uppbótarþingmenn í gang þannig að flokkurinn gæti fengið í það minnsta þrjá þingmenn.

Samstaðan minnkar

Hér hefur verið farið yfir það hvaða þingmenn myndi alla af þingi ef gengið yrði til kosninga nú. Fyrir utan þingmenn Sjálfstæðisflokksins þurfa nú einhverjir að fylla skarð þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem missa sæti sín ef marka má Þjóðarpúlsinn frá því í febrúar.

Samstaða, flokkur Lilju Mósesdóttur, fengi sex þingmenn kjörna ef gengið yrði til kosninga nú en hefði fengið átta í febrúar. Fylgi framboðsins mælist nú tæplega 9% á landsvísu og minnkar um tæp 2,5 prósentustig á milli mánaða. Framboðið fengi einn þingmann í öllum kjördæmum ef gengið yrði til kosninga nú.