Síðustu daga hafa birst nokkrar fréttir af því hvaða alþingismenn hyggjast hætta á þingi í vor, fréttir um það hverjir eru að bjóða sig fram og síðan vangaveltur um það hvað hinir og þessi hyggjast gera í komandi kosningum.

Það er vinsæll samkvæmisleikur í pólitíkinni að velta því upp hvaða þingmenn myndu detta af þingi ef gengið yrði til kosninga nú og hvaða þingmenn kæmu nýir inn. Það hugsa líklega fáir eins mikið um sæti þingmanna eins og þeir sjálfir og því er ekki úr vegi að meta stöðu þeirra þingmanna sem nú sitja í ljósi nýjasta Þjóðarpúls Capacent.

Líkt og áður þá er núverandi stjórnarmeirihluti kolfallinn ef gengið yrði til kosninga nú. Reyndar hefur ríkisstjórnarmeirihlutinn ekki haldið velli frá því í byrjun árs 2010. Viðskiptablaðið hefur undir höndum niðurstöður Þjóðarpúlsins í ágúst, brotið niður eftir kjördæmum, sem gerir það að verkum að hægt er að reikna út þingmannafjölda flokkanna.

Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og VG, tapa samanlagt 8 þingmönnum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 11 þingmönnum og Framsóknarflokkurinn einum þingmanni. Þetta er þó nokkuð betri staða ríkisstjórnarflokkanna en í vor, þegar þeir höfðu tapað 14 þingmönnum skv. Þjóðarpúlsinum. Enginn annar flokkur fengi mann kjörinn á þing ef kosið yrði nú. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 27, Samfylkingin 16, Vinstri grænir tíu og Framsóknarflokkurinn tíu.

Eina leiðin til að meta hvaða þingmenn myndu detta af þingi er að miða við framboðslista flokkanna fyrir kosningarnar 2009, þó eðli málsins samkvæmt megi gera  ráð fyrir að þeir myndu breytast nokkuð ef gengið yrði til kosninga nú.

Sjálfstæðisflokkurinn: +11 þingmenn

Sjálfstæðisflokkurinn mældist í ágúst með 36% fylgi á landsvísu en náði hæst 39% fylgi í maí sl. Hann yrði í dag stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum, nema NA-kjördæmi þar sem Framsóknarflokkurinn mælist nú stærstur. Nánar að því hér neðar í textanum.

Sjálfstæðisflokkurinn myndi bæta við sig þingmönnum í öllum kjördæmum, mest í Reykjavík norður þar sem flokkurinn fengi fimm þingmenn kjörna og bætir því við sig þremur þingmönnum. Flokkurinn mælist þó sterkari í Reykjavík Suður eins og áður – og bætir þar við sig tveimur þingmönnum og fær fimm kjörna – en þriðji þingmaðurinn í Reykjavík norður væri uppbótarþingmaur sökum þess hvernig atkvæði skiptast á landsvísu. Þeir þingmenn sem myndu bætast við í Reykjavík væru þá Erla Ósk Ásgeirsdóttir og Sigríður Á. Andersen í Reykjavík suður og Sigurður Kári Kristjánsson, Ásta Möller og Þórlindur Kjartansson í Reykjavík norður.

Sterkasta vígi flokksins er þó Suðvesturkjördæmi (kraginn) þar sem flokkurinn mælist með rúmlega 41% fylgi. Hann myndi í dag bæta við sig tveimur þingmönnum í kjördæminu og fá sex kjörna fulltrúa. Það yrðu samkvæmt framboðslistanum frá 2009 þau Óli Björn Kárason og Rósa Guðbjartsdóttir.

Þó svo að NA-kjördæmi sé sem fyrr veikasta vígi Sjálfstæðisflokksins myndi hann engu að síður bæta við sig einum þingmanni í dag, sem er Arnbjörg Sveinsdóttir skv. framboðslistanum frá 2009. Það sama myndi gerast í NV-kjördæmi þar sem Eyrún I. Sigþórsdóttir myndi komast inn á þing. Í hvoru kjördæmi fyrir sig, þ.e. NA og NA, fengi flokkurinn kjörna þrjá menn.

Athygli vekur þó að fylgi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi lækkaði töluvert í ágúst og flokkurinn mældist þá í fyrsta sinn í lengri tíma með undir 40% fylgi. Suðurkjördæmi hefur oft á tíðum veri sterkasta vígi flokksins, til skiptis á við SV-kjördæmi, og þar hefur flokkurinn fram að þessu verið að mælast með 42-46% fylgi. Rétt er að taka fram að þessi Þjóðarpúls var birtur áður en Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti flokksins í kjördæminu, var látin hætta sem þingflokksformaður. Flokkurinn myndi engu að síður bæta við sig tveimur þingmönnum í kjördæminu, Írisi Róbertsdóttur og Kjartani Ólafssyni, og fengi þar fimm þingmenn.

Samfylkingin: -8 þingmenn

Samfylkingin fengi 20,7% fylgi á landsvísu skv. Þjóðarpúlsinum en flokkurinn mældist með 17,5% fylgi í mars sl. og hefur því nokkuð bætt sig í sumar. Flokkurinn myndi í dag missa fjóra þingmenn, flesta af landsbyggðinni.

Samfylkingin myndi í dag halda sínum fjórum þingmönnum í Reykjavík norður (sem er jafnframt stærsta vígi flokksins þar sem hann mælist með 27,3%) en myndi aftur á móti tapa einum þingmanni í Reykjavík suður og fá þrjá kjörna þar. Sá þingmaður heitir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og er forseti Alþingis.

Það sem vakti athygli snemma í vor er að fylgi Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi hafði hrunið nokkuð eftir að Árni Páll Árnason, oddviti flokksins í kjördæminu, var hrakinn úr ráðherrastól um síðustu áramót. Flokkurinn fékk rúmlega 32% fylgi í kjördæminu í kosningunum 2009 en í mars sl. var fylgið komið niður í 15,5%. Lúðvík Geirsson og Magnús Orri Schram, þingflokksformaður, voru orðnir tæpir um sæti sín í vor. Flokkurinn fengi þó í dag um 22% fylgi í kjördæminu skv. Þjóðarpúlsinum og héldi sínum fjórum þingmönnum.

Þá myndi Samfylkingin tapa einum í Suðurkjördæmi, Róberti Marshall (sem þegar hefur tilkynnt að hann hyggist færa sig til Reykjavíkur fyrir næstu kosningar). Í vor hefði Oddný G. Harðardóttir, sem brátt verður fyrrv. fjármálaráherra, ekki haldið sæti sínu en hún er inni núna.

Í NA-kjördæmi fengi Samfylkingin tvo þingmenn kjörna í dag, sem þýðir að og Jónína Rós Guðmundsdóttir myndi detta af þingi. Í febrúar sl. hefði Sigmundur Ernir Rúnarsson einnig fallið af þingi. Samfylkingin fengi bara einn þingmann í NV-kjördæmi sem þýðir að Ólína Þorvarðardóttir myndi falla af þingi. Rétt er að geta þess að skv. Þjóðarpúlsinum hefði Ólína misst þingsæti sitt sl. 22 mánuði.

Vinstri grænir: - 4 þingmenn

Þingmannastaða Vinstri grænna er öllu flóknari eins og áður hefur verið greint frá. Flokkurinn fékk 14 þingmenn kjörna í síðustu kosningum, og hafði aldrei fengið jafn marga. Þingflokk VG í dag skipa þó aðeins 12 manns, þar sem þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir hafa gengið úr þingflokknum. Vinstri grænir hrepptu þó Þráinn Bertelsson úr Hreyfingunni í þingflokk sinn á móti.

VG fengi í dag 13,3% fylgi á landsvísu en fékk í síðustu kosningum tæplega 22% fylgi.

Það sem helst vekur athygli er að NA-kjördæmi, kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar formanns VG, sem hingað til hefur verið sterkasta vígi flokksins er það ekki lengur. Flokkurinn mælist í dag með um 18% fylgi þar en tæplega 19% í NV-kjördæmi þar sem Jón Bjarnason er oddviti. Það er þó mjög mjótt á munum svo það sé tekið fram.

Flokkurinn myndi þó missa einn mann úr hvoru kjördæmi, þá Björn Val Gíslason , nýhættan þingflokksformann VG og einn helsta bandamann formannsins, út af þingi. Að sama skapi myndi Lilja Rafney Magnúsdóttir detta af þingi fyrir NV-kjördæmi.

Í Reykjavík norður myndi Álfheiður Ingadóttir falla af þingi og í Suðurkjördæmi fengi flokkurinn engan mann kjörinn á þing en efstur á lista VG í síðustu kosningum var Atli Gíslason sem nú er sem kunnugt er ekki lengur í þingflokki VG.

Framsókn: +1

Framsóknarflokkurinn fengi í dag tæplega 14% fylgi á landsvísu. Flokkurinn myndi bæta við sig einum þingmanni og fengi tíu þingmenn kjörna. Norðausturkjördæmi er í dag stærsta vígi Framsóknarflokksins og reyndar þannig að flokkurinn fengi fyrsta þingmann kjördæmisins. Þar mælist flokkurinn með um 30% fylgi.

Flokkurinn fengi þrjá menn kjörna og myndi bæta við sig einum þingmanni í kjördæminu, Huld Aðalbjarnadóttur. Þá fengi Framsóknarflokkurinn einnig þrjá menn kjörna í NV-kjördæmi og bætti við sig einum manni, Sigurgeir Sindra Sigurgeirssyni.

Flokkurinn myndi halda sama þingmannafjölda í öllum öðrum kjördæmum, nema í Reykjavík norður þar sem formaður flokksins, Sigmunur Davíð Gunnlaugsson , myndi falla af þingi. Framsóknarflokkurinn er í dag með einn þingmann úr hvoru kjördæminu í Reykjavík, Sigmund Davíð í norðurhlutanum og Vigdísi Hauksdóttur í suðurhlutanum. Miðað við niðurstöður Þjóðarpúlsins síðustu mánuði er helsta fylgisaukning flokksins að koma frá landsbyggði og þau Sigmundur Davíð og Vigdís skiptast á að detta inn og út af lista yfir þá þingmenn sem myndu falla af þingi.

Ekkert minni framboðanna inni

Líkt og fram kom í upphafi þá myndi enginn annar flokkur ná manni inn á þing ef gengið yrði til kosninga nú. Björt framtíð, sem er félagsskapur stofnaður af Guðmundi Steingrímssyni, hefur aðeins einu sinni mælst með einn þingmann inni, en það var í febrúar sl.

Samstaða, flokkur stofnaður af Lilju Mósesdóttur, náði miklu flugi í byrjun árs og í febrúar sl. mældist framboðið með 11,3% fylgi og átta þingmenn. Þeim fækkaði niður í sex strax í mars og í dag mælist framboðið einungis með 3% fylgi.

Borgarahreyfingin fékk fjóra þingmenn kjörna í síðustu kosningum. Nú tilheyra þrír þeirra, þau Birgitta Jónsdóttir (Reykjavík-suður), Þór Saari (SV-kjördæmi) og Margrét Tryggvadóttir (S-kjördæmi), Hreyfingunni - en einn þeirra, Þráinn Bertelsson (Reykjavík-norður), Vinstri grænum. Öll myndu þau falla út af þingi ef kosið yrði nú.