Fjármálaráðherra, innanríkisráðherra, allir þingmenn Hreyfingarinnar og formaður Framsóknarflokksins eru meðal þeirra þingmanna sem myndu falla af þingi er gengið yrði til kosninga nú.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag er núverandi stjórnarmeirihluti kolfallinn ef gengið yrði til kosninga nú. Viðskiptablaðið hefur undir höndum niðurstöður Þjóðarpúls Capacent frá því í febrúar sl., brotið niður eftir kjördæmum, sem gerir það að verkum að hægt er að reikna út þingmannafjölda flokkanna. Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og VG, tapa samanlagt 13 þingmönnum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn og Samstaða bæta við sig átta þingmönnum hvor.

Ef miðað er við þá fulltrúa sem flokkarnir fengu kjörna í alþingiskosningunum vorið 2009 myndi Samfylkingin nú missa sjö þingmenn, Vinstri grænir sex þingmenn auk þess sem Hreyfingin myndi þurrkast út af þingi. Á móti myndi Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig átta þingmönnum, Samstaða (flokkur Lilju Mósesdóttur) myndi jafnframt fá átta þingmenn og Björt framtíð (afsprengi Besta flokksins) myndi fá einn þingmann kjörinn.

Athyglisvert er að skoða nafnalistann, þ.e. hverjir það eru nákvæmlega sem myndu detta út af þingi nú. Eina leiðin er að miða við framboðslista flokkanna fyrir kosningarnar 2009 þó eðli málsins samkvæmt megi gera  ráð fyrir að þeir myndu breytast nokkuð ef gengið yrði til kosninga nú.

Samfylkingin: - 7 þingmenn

Samfylkingin myndi sem fyrr segir missa sjö þingmenn. Í einu kjördæmi, Reykjavík suður, heldur Samfylkingin óbreyttum þingmannafjölda eða fjórum þingmönnum. Í Reykjavík norður myndi flokkurinn þó tapa einum þingmanni. Sá þingmaður er Mörður Árnason sem tók sæti Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem sagði af sér fyrr á kjörtímabilinu.

Þá myndi Samfylkingin tapa tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi. Björgvin G. Sigurðsson myndi einn halda sínu sæti en þau Oddný G. Harðardóttir , fjármálaráðherra, og Róbert Marshall myndu detta út af þingi í þessu veikasta kjördæmi Samfylkingarinnar. Í SV-kjördæmi myndi Lúðvík Geirsson detta af þingi en hann tók sæti Þórunnar Sveinbjarnadóttur sem sagði af sér þingmennsku á síðasta ári. Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, var að vísu í sæti fyrir neðan Þórunni en rétt er að miða við að hann hafi færst upp um eitt sæti með afsögn Þórunnar.

Í NA-kjördæmi fengi Samfylkingin aðeins einn kjörinn þingmann í dag, sem þýðir að þau Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir myndu falla af þingi. Samfylkingin fengi líka bara einn þingmann í NV-kjördæmi sem þýðir að Ólína Þorvarðardóttir myndi falla af þingi.

Vinstri grænir: - 6 þingmenn

Þingmannastaða Vinstri grænna er öllu flóknari. Flokkurinn fékk 14 þingmenn kjörna í síðustu kosningum, og hafði aldrei fengið jafn marga. Þingflokk VG í dag skipa þó aðeins 12 manns, þar sem þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir hafa gengið úr þingflokknum. Vinstri grænir hrepptu þó Þráinn Bertelsson úr Hreyfingunni í þingflokk sinn á móti.

Aðeins í S-kjördæmi myndi þingmannafjöldi VG haldast sá sami. Sá hængur er þó á að Atli Gíslason er eini kjörni fulltrúi VG í kjördæminu þannig að í raun eiga Vinstri grænir í dag engan þingmann úr Suðurkjördæmi.

Flestum þingmönnum tapa Vinstri grænir í NV-kjördæmi. Samkvæmt framboðslista síðustu kosninga myndu þau Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ásmundur Einar falla út af þingi, eða öllu heldur hver sá sem fylla myndi hans skarð á framboðslistanum. Í NA-kjördæmi, kjördæmi Steingríms J., myndi flokkurinn missa Björn Val Gíslason , þingflokksformann VG, út af þingi.

Í SV-kjördæmi myndi Ögmundur Jónasson , innanríkisráðherra, falla út af þingi en hann sat í öðru sæti lista VG á eftir Guðfríði Lilju Grétarsdóttur í síðustu kosningum. Í Reykjavík myndi Lilja Mósesdóttir falla af þingi í Reykjavík suður og Álfheiður Ingadóttir úr Reykjavík norður. Rétt er að rifja upp að Lilja er ekki lengur í þingflokki VG.

Hreyfingin: Allir þingmenn úti

Borgarahreyfingin fékk fjóra þingmenn kjörna í síðustu kosningum. Nú tilheyra þrír þeirra, þau Birgitta Jónsdóttir (Reykjavík-suður), Þór Saari (SV-kjördæmi) og Margrét Tryggvadóttir (S-kjördæmi), Hreyfingunni en einn þeirra, Þráinn Bertelsson (Reykjavík-norður), Vinstri grænum. Öll myndu þau falla út af þingi ef kosið yrði nú. Fylgi Hreyfingarinnar er varla mælanlegt, nema þá helst í Reykjavík þar sem flokkurinn er með tæplega 5% fylgi.

Framsókn: Formaður úti en þingmannafjöldinn sá sami

Framsóknarflokkurinn leiðir bæði norðurkjördæmin, þ.e. NV-kjördæmin og NA-kjördæmi með um 26% fylgi í hvoru kjördæmi. Flokkurinn á í dag tvo þingmenn úr NA-kjördæmi (flokkurinn hefur lengi verið mjög sterkur á Austurlandi) en fengi í dag einn þingmann til viðbótar, sem skv. síðasta framboðslista flokksins er Huld Aðalbjarnadóttir.

Þá fékk flokkurinn tvo þingmenn kjörna í NV-kjördæmi en annar þeirra, Guðmundur Steingrímsson, hefur nú gengið úr flokknum. Að vísu hefur Ásmundur Einar Daðason gengið til liðs við flokkinn í sama kjördæmi. Flokkurinn heldur sama þingmannafjölda í NV-kjördæmi. Það sama á við um Suður og SV-kjördæmi, flokkurinn heldur sama þingmannafjölda þrátt fyrir að missa 3-4% fylgi.

Þá heldur Framsókn þingmanni sínu í Reykjavík suður, en tapar þingmanni sínum í Reykjavík norður. Sá þingmaður heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og er formaður flokksins. Reykjavík norður er jafnframt veikasta kjördæmi flokksins. Að sama skapi er það eina kjördæmið þar sem Björt framtíð fengi þingmann skv. Þjóðarpúlsinum.

Sjálfstæðisflokkurinn: +8 þingmenn

Sem fyrr segir bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig um 10% fylgi, eða öllu heldur 10 prósentustigum, frá síðustu kosningum. Mestu fylgi bætir hann við sig í S-kjördæmi, eða 16 prósentustigum og tveimur þingmönnum. Nú er rétt að taka fram að líkast til myndi Sjálfstæðisflokkurinn líkt og aðrir flokkar breyta framboðslistum sínum ef gengið yrði til kosninga nú. Hér er þó einungis hægt að miða við framboðslistana frá árinu 2009. Miðað við þá myndu Íris Róbertsdóttir og Kjartan Ólafsson ná kjöri í S-kjördæmi.

Þrátt fyrir að NA-kjördæmi sé slakasta kjördæmi Sjálfstæðisflokksins myndi flokkurinn bæta við sig einum þingmanni. Skv. síðasta framboðslista yrði það Arnbjörg Sveinsdóttir. NV-kjördæmi er eina kjördæmið þar sem flokkurinn bætir ekki við sig þingmanni.

Í SV-kjördæmi myndi flokkurinn bæta við sig tveimur þingmönnum og fengi því sex þingmenn í kjördæminu. Það myndu vera þau Óli Björn Kárason og Rósa Guðbjartsdóttir.

Flokkurinn fengi átta þingmenn kjörna í Reykjavík í dag, fjóra úr hvoru kjördæmi. Gengi flokksins í Reykjavík í síðustu alþingiskosningum var það slakast sem hafði sést í mörg ár. Þannig myndi flokkurinn bæta við sig einum þingmanni í Reykjavík suður og tveimur úr Reykjavík norður. Í Reykjavík suður yrði það Erla Ósk Ásgeirsdóttir og í Reykjavík norður þau Sigurður Kári Kristjánsson og Ásta Möller.

Samstaða og Björt framtíð koma ný inn

Hér hefur verið farið yfir það hvaða þingmenn myndi alla af þingi ef gengið yrði til kosninga nú. Fyrir utan þingmenn Sjálfstæðisflokksins þurfa nú einhverjir að fylla skarð þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem missa sæti sín ef marka má Þjóðarpúlsinn frá því í febrúar.

Samstaða, flokkur Lilju Mósesdóttur, fengi átta þingmenn kjörna og myndi þannig mælast jafn stór og þingflokkur Vinstri grænna. Samstaða fengi rúmlega 11% fylgi á landsvísu en VG 12%. Þó liggur ekkert fyrir um framboðslista þannig að ekkert er hægt að segja til um verðandi þingmenn flokksins, þó gera megi ráð fyrir að Lilja Mósesdóttir yrði í forsvari í einhverju kjördæmanna.

Þá myndi Björt framtíð, afsprengi Besta flokksins undir forystu Guðmundar Steingrímssonar, einn þingmann kjörinn í Reykjavík norður. Flokkurinn fengi, ef gengið yrði til kosninga nú, um 4,3% fylgi á landsvísu. Rétt er að geta þess að ef framboðið fengi yfir 5% á landsvísu fengi flokkurinn að öllum líkindum 3 þingmenn (sem jöfnunar- eða uppbótarþingmenn) og tæki þá frá Samstöðu og Sjálfstæðisflokk.