Óvíst er hvort að tillaga Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að Alþingi falli frá ákærunni á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, njóti meirihluta á Alþingi.

Sem kunnugt er lagði þingmannanefnd undir forystu Atla Gíslasonar það til við Alþingi að fjórir fyrrverandi ráðherrar sem sátu í ríkisstjórn haustið 2008 yrðu ákærðir og mál gegn þeim rekið fyrir landsdómi. Þetta voru ráðherrarnir Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Björgvin G. Sigurðsson og Árni M. Mathiesen.

Að lokinni atkvæðagreiðslu um málið var niðurstaðan sú að Geir H. Haarde var einni ákærður, en þar réði mestu um að þingflokkur Samfylkingarinnar klofnaði í málinu. Hluti þingflokksins greiddi atkvæði gegn því að ákæra fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar og Árna, en með því að ákæra Geir H. Haarde.

Bjarni Benediktsson lagði fyrir áramót fram þingsályktunartillögu þess efnis að ákæran gegn Geir yrði dregin til baka á Alþingi. Málið hefur valdið stjórnarflokkunum miklum vandræðum frá því að það var lagt fram og fyrir áramót var samið við forystu Sjálfstæðisflokksins um að taka málið fyrir nú í janúar. Tillagan verður tekin fyrir á föstudaginn.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er óvíst hvort að tillagan njóti stuðnings meirihluta Alþingis. Eins og staðan er núna herma heimildir Viðskiptablaðsins að hún geri það ekki. Hins vegar hefur opinber afstaða Ögmundar Jónassonar valdið miklum titringi innan raða Vinstri grænna (VG). Þingflokkur VG mun funda í kvöld þar sem málið verður tekið fyrir en gera má ráð fyrir því að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir styðji tillögu Bjarna einnig.

Þá hefur það verið viðrað innan stjórnarráðsins hvort rétt sé að leggja fram frávísunartillögu. Hún yrði þá tekin fyrir áður en tillaga Bjarna verður sett á dagskrá. Þó er óvíst að frávísunartillaga myndi njóta stuðnings á Alþingi þannig að allt bendir til þess að tillaga Bjarna verði borin upp.

Mesta óvissan ríkir um stuðning þingflokka Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins við tillöguna. Þó svo að stór hluti þingflokks Samfylkingarinnar hafi á sínum tíma greitt atkvæði gegn því að ákæra Geir er óvíst að þingmenn flokksins greið atkvæði með tillögu Bjarna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Málið þykir að öllu leyti óþægilegt og þingmenn flokksins vita sem stendur ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga í málinu.

Geir H. Haarde - Blaðamannafundur 06.06.11
Geir H. Haarde - Blaðamannafundur 06.06.11
© vb.is (vb.is)