Sérfræðingahópur á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) hefur á síðustu vikum og mánuðum kynnt nýja áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Tillögurnar hafa meðal annars verið kynntar fyrir stjórnvöldum, Seðlabanka Íslands, og samtökum innan atvinnulífsins. Í kynningum á hugmyndunum hefur SFF lagt áherslu á að tillögurnar séu ekki hugsaðar sem gagnrýni á núverandi áætlun Seðlabanka Íslands, sem er frá mars 2011, heldur sem vinnuskjal til umræðu. Viðmælendur Viðskiptablaðsins sem hafa komið að málum segja að nú sé reynt að ná sem mestri sátt um næstu skref afnámsferlisins.

Kjarni í tillögum SFF er að beina þeim krónum sem eru í eigu erlendra aðila, sem oft eru nefndar aflandskrónur, í löng skuldabréf í erlendum gjaldmiðli. Áður hefur Viðskiptaráð Íslands kynnt tillögu þess efnis að gefið yrði út langt ríkisskuldabréf í erlendri mynt sem erlendir krónueigendur gætu fjárfest í. Hugmyndir SFF eru víðtækari að því leyti að ríkið yrði ekki eini útgefandi skuldabréfa, heldur einnig sveitarfélög, orkufyrirtæki, fjármálafyrirtæki og fyrirtæki sem hafa undanþágu frá skilaskylda gjaldeyris.

Takmörkuð útgáfa

Útgáfa þessara aðila yrði þó takmörkuð. Í tilviki ríkisins myndi hún takmarkast við núverandi eign erlendra aðila á ríkisskuldabréfum. Útgáfa orkufyrirtækja og orkudreifingarfyrirtækja myndi svara til innlends þáttakostnaðar nýfjárfestinga eða endurfjármögnun erlendra lána frá erlendum fjármálafyrirtækjum sem eru á gjalddaga á næstu tólf mánuðum. Fjármögnun fjármálafyrirtækja með útgáfu þessara skuldabréfa yrði ætlað að lækka gjaldeyrisójöfnuð þeirra og miðast við gjaldeyrisójöfnuð í bókum bankanna um síðustu áramót. Sveitarfélögum yrði heimilt að endurfjármagna erlend lán sem eru á gjalddaga á næstu tólf mánuðum. Þá mættu þau fyrirtæki sem eru á undanþágu frá skilaskyldu gjaldeyris leita fjármögnunar með útgáfu bréfa í erlendri mynt sem svarar til innlends þáttakostnaðar vegna nýfjárfestingar.

Til þess að beina krónum erlendra aðila, sem í dag mynda umrædda „snjóhengju“, í þennan farveg yrði eigendum krónanna gert óheimilt að ráðast í frekari kaup á skuldabréfum í íslenskum krónum. Þar hafa erlendir aðilar verið stórir eigendur, sér í lagi í styttri skuldabréfum ríkisins. Við slíka lokun yrðu fjárfestingakostum erlendra aðila takmarkaðir við áðurnefnd skuldabréf og innstæður í bönkunum. Hugmyndir SFF gera ráð fyrir að fjárfestingaleið SÍ yrði áfram opin.

Opnar fyrir frekara afnám

Ekki er fast í hendi á hvaða gengi slík viðskipti yrðu gerð eða á hver vaxtakjör yrðu. Ákvörðun um síðarnefndu kjörin yrðu í höndum útgefenda hverju sinni en gengi krónunnar við kaup á þeim af erlendu aðilunum yrði í höndum Seðlabankans, ýmist með sérstökum útboðum eða einhliða ákvörðun. SFF leggur til að lánstími skuldabréfanna verði að minnsta kosti 15 ár og að endurgreiðslur af höfuðstól hefjist ekki fyrr en árið 2018. Heimilt yrði að skrá bréfin í erlendri verðbréfaskráningu.

Sérfræðingahjópur SFF telur að með því að binda stóran hluta „snjóhengjunnar“ í langtímaskuldabréfum útgefnum af innlendum aðilum myndist grundvöllur fyrir því að afnema takmarkanir á gjaldeyrisviðskipti innlendra aðila og það erlenda fé sem kom inn eftir 28. nóvember 2008. Takmörkunum á fjármagnshreyfingum innlendra aðila og það erlenda fé sem kom til landsins eftir áðurnefnda dagsetningu yrði aflétt í þremur skrefum í kjölfarið. Takmarkanir á fjármuni sem læstust hér inni við setningu gjaldeyrishafta yrðu þannig áfram í gildi.

Hliðaraðgerðir

Aðgerðir sem þessar kalla hliðaraðgerðir. Margar af þeim tillögum sem SFF leggur til í þeim efnum ríma við nýútkomið skjal Seðlabankans um setningu varúðarreglna. Til að mynda er lagt til að heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis verði þregndar og einnig að lausafjárkvöð vegna innstæðna erlendra aðila í bönkunum verði 100%.  Þá þyrftu þeir lántakendur sem vilja taka erlend lán, en hafa ekki erlendar tekjur, að leggja fram meira eigið fé en væri við lántöku í krónum.