Bílasala tók verulega við sér í júní frá því sem verið hafði mánuðina á undan og sama þróun heldur áfram fyrstu tíu dagana í júlí, samkvæmt tölum frá Umferðastofu. Það sem af er júlí hafa selst 205 bílar, bæði nýir og notaðir fólksbílar og aðrir, sem er nánast það sama og allan maí þegar 226 bílar seldust allan mánuðinn.

Samdrátturinn frá því fyrir ári er þó enn gríðarlegur. Ef horft er á fólksbíla dróst salan í júní saman um 64% frá því í fyrra, en hafði fram að því dregist saman um 90% á mánuði að meðaltali eftir bankahrun. Í þessu sambandi má einnig líta til þess að frá því í mars í fyrra hafði sala dregist mikið saman frá árinu 2007.

Júlí í fyrra markaði upphaf kreppunnar í bílasölu

Ef salan héldist óbreytt út júlí yrði samdráttur í sölu fólksbíla á milli ára aðeins 15%. Þá ber þó að hafa í huga að í júlí í fyrra dróst salan saman um 62% og segja má að sá mánuður hafi markað upphaf kreppunnar í bílasölu, því að í ágúst og september var áfram mikill samdráttur.

Engin leið er að spá fyrir um söluna framundan, enda ræðst hún af efnahagsástandi og ekki síst gengi krónunnar. Þó má ætla að samdráttur á milli ára verði á næstunni minni en hann hefur verið, þar sem samdrátturinn var þegar hafinn af fullum þunga í júlí í fyrra.