Koma nýrrar flugvél Landhelgisgæslunnar af gerðinni Dash 8 Q300 í sumar gjörbreytti möguleikum gæslunnar til að fylgjast með umferð á hafi úti og eins á landi. Síðustu vikur hefur búnaður hennar einnig reynst vel í vöktun og rannsóknum á eldgosum, fyrst í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi og í dag við eldgosið í Eyjafjallajökli þar sem búnaður vélarinnar náði myndum af gígum í gegnum ský og gosstrokka.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins kynnti sér vélina og búnað hennar í byrjun febrúar sl. og þá var birt í blaðinu nánari úttekt á þeim búnaði. Verkefni gæslunnar þann daginn var heldur óvenjulegt, eða leit að ísbirni en daginn áður hafði ungur ísbjörn verið felldur við Þistilfjörð. Í raun má segja að vöktun gosstöðva sé líka óvenjulegt verkefni og því má ráða að áhafnir flugvélarinnar eigi sífellt von á óventum og fjölbreyttum verkefnum.

Að sögn flugmanna gæslunnar hefur vélin reynst einstaklega vel. Hún þykir þægileg á flugi, lipur og mjúk og lætur vel að stjórn við erfiðar aðstæður. Eldri vél Gæslunnar, TF SYN, af gerðinni Fokker Friendship F27, er nú komin á safn en vélarnar eru varla samanburðarhæfar þegar kemur að strandgæsluverkefnum.

Þar munar þó mestu um tæknibúnaðinn um borð í nýju vélinni sem gerir áhöfn hennar kleift að fljúga hærra en mögulegt var á gömlu vélinni til að fylgjast með því sem gerist á hafinu. Þá er vélin gerð til að þola talsverðan hliðarvind við flugtak og lendingu, um 36 hnúta, og því auðvelt að fljúga henni í þeim erfiðu aðstæðum sem geta skapast hér á landi.

Með því að smella á númer myndanna hér til hliðar má sjá nánari umfjöllun um búnað vélarinnar.