Hingað til hefur hvorki Seðlabanki Bandaríkjanna, né bankastjórar hans, skipti sér af því hvernig launamálum æðstu stjórnenda er háttað.

Nú virðist ætla að verða breyting þar á en bæði ríkisstjórn Barack Obama og stjórnendur bandaríska Seðlabankans hafa látið til sín taka við launakjör þeirra bankastofnana sem þegið hafa neyðarlán frá hinu opinbera. Skýrasta dæmið um það er nýtt og tímabundið embætti launakeisarans en þar er um að ræða litla nefnd sem Obama skipaði til að fylgjast með, og koma með tillögur um, launakjör æðstu stjórnenda banka og fjármálastofnana.

En sem fyrr segir hafa opinberir aðilar lítið skipt sér af þessu hingað til. Hvorki Alan Greenspan, bankastjóri Seðlabankans frá 1987-2006 né Ben Bernanke, núverandi seðlabankastjóri höfðu nokkru sinni tjáð sig um launakjörin á Wall Street, eins og tekið er til orða í fjölmiðlum vestanhafs.

Reuters fréttastofan hefur tekið saman efni úr opinberum ræðum seðlabankastjóranna og aðeins þrettán sinnum koma orðin „kjör stjórnenda“ (e. executive compensation) fyrir í  ræðum eða opinberum ummælum bankastjóra, en það var í mars á þessu ári þegar Ben Bernanke fordæmdi gífurlega háar bónusgreiðslur til stjórnenda tryggingafélagsins AIG – sem Seðlabankinn einmitt bjargaði með 85 milljarða dala fjárveitingu (reyndar gegn því að taka yfir 80%n hlut í félaginu).

Spurning um sjálfstæði Seðlabankans

En sem fyrr segir stefnir allt í að nú verði breyting á þessu. í gær kynntu Seðlabankinn og bandaríska fjármálaráðuneytið að það væri sameiginleg stefna beggja aðila að setja reglugerðir um launakjör á Wall Street. Tilgangur reglnanna er verður, að sögn fyrrnefndra aðila, að hvetja til þess að stjórnendur fjármálafyrirtækja hugi frekar að fyrirtækjunum með langtímamarkmið að leiðarljósi en eins til að Seðlabankinn (sem jafnframt sinni hlutverki fjármálaeftirlits) hafi betri yfirsýn yfir launakjör helstu stjórnenda.

Eins og gefur að skilja er nokkuð fjallað um þetta á viðskiptasíðum eða þáttum í fjölmiðlum vestanhafs. Fáir hafa sett sig upp á móti tillögunni, en viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar útskýrir það þó þannig að fjármálastofnanirnar „hafi ekki efni á því að mótmæla þeim“ þar sem þátíð, nútíð og framtíð þeirra sé í höndum hins opinbera, m.ö.o. að fjármálafyrirtækin eigi stofnununum líf sitt að þakka og verði að halda þeim góðum.

En þeir sem þó hafa eitthvað við fyrirhugaðar launareglugerðir að athuga segja þó flestir að þær vegi þó fyrst og fremst að sjálfstæði bandaríska seðlabankans. Ekki sé við að hæfi að fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn vinni saman að pólitísku markmiði – því það að setja fram reglugerðir um laun stjórnenda fjármálafyrirtækja er ekkert annað en pólitík, segir einn viðmælandi Reuters – heldur sé Seðlabankanum ætlað annað hlutverk.

Um þetta er þó deilt enda telja aðrir viðmælendur Reuters að Seðlabankanum sé skylt að taka þátt í því að skapa stöðugleika í fjármálakerfinu, ofurlaunin svokölluðu hafi sett kerfið úr jafnvægi, og því sé, af fenginni reynslu, nauðsynlegt að bregðast við.

Afstaða ríkisstjórnarinnar er skýr

Ljóst er að það er vilji innan ríkisstjórnar Obama til að hafa töng og haldir á launaþróun á Wall Street. Obama Bandríkjaforseti og ráðherrar í ríkisstjórn hans hafa hvað eftir annað lýst yfir hneykslun sinni og notað stór orð um háar bónusgreiðslur til æðstu stjórnenda á Wall Street. Því kemur ekki á óvart að fjármálaráðuneytið skuli leggja fram tillögur um lög eða reglugerðir varðandi þetta. Að sama skapi hefur Obama  lýst því yfir að félög, sem greiðir stjórnendum himinhá laun og bónusa, ættu í framtíðinni ekki að hafa rétt á neyðarlánum frá hinu opinbera, þannig að einn vinkill í umræðunni sé dreginn fram.

Hvað sem verður er ljóst að hlutverk Seðlabanka Bandaríkjanna er snúið. Hvort að seðlabankastjórar taki þátt í pólitískum útspilum mun tíminn leiða í ljós en af umræðu gærdagsins má ráða að nokkuð verður um það deilt.