Traust almennings til Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns Vinstri grænna (VG), hefur minnkað lítillega á milli ára. Mun fleiri segjast þó bera lítið traust til Steingríms J. á meðan stuðningsmenn VG bera mikið traust til hans.

Þetta sýnir ný könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum.

Rúmlega 22% landsmanna ber „frekar eða mjög mikið“ traust til Steingríms J. samkvæmt könnuninni. Í febrúar 2009, þegar Steingrímur J. varð ráðherra í ríkisstjórn, sögðust 38% bera frekar eða mikið traust til hans.

Traust almennings til Steingríms J. Sigfússonar, frá des. 2008.
Traust almennings til Steingríms J. Sigfússonar, frá des. 2008.
© vb.is (vb.is)

Á myndinni hér að ofan má sjá þróunina á trausti til Steingríms J. frá því í desember 2008. Fjöldi þeirra sem segjast bera „frekar eða mjög lítið“ traust til Steingríms J. hefur aldrei verið meiri en nú frá því að MMR birti fyrstu könnun sína í þessum flokki í desember 2008. Nú segjast um 56% aðspurðra vantreysta Steingrími J.

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á trausti til Steingríms J. flokkað eftir stuðningi almennings við stjórnmálaflokka. Þar sést hvernig traust til hans hefur dalað í öllum flokkum, líka meðal stuðningsmanna VG. í desember 2008 sögðust 84% stuðningsmanna VG treysta Steingrími en nú segjast um 82% stuðningsmanna VG treysta honum. Mest fór traustfylgið meðal stuðningsmanna VG í 93% í september 2009.

Traust almennings til Steingríms J. Sigfússonar, flokkað eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, frá des. 2008.
Traust almennings til Steingríms J. Sigfússonar, flokkað eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, frá des. 2008.
© vb.is (vb.is)

Steingrímur J. nýtur líka mikils trausts meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar þó það hafi farið minnkandi. Í desember 2008, á meðan Samfylkingin var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, voru aðeins um 25% stuðningsmanna Samfylkingarinnar sem sögðust treysta Steingrími J. Eftir að VG og Samfylkingin mynduðu ríkisstjórn í febrúar 2009 jókst traust stuðningsmanna Samfylkingarinnar á Steingrími J. og mest fór það í 78% í maí í fyrra. Síðan þá hefur það minnkað og nú segjast um 67% stuðningsmanna Samfylkingarinnar treysta honum.

Traustið meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins hefur einnig minnkað verulega, úr 35% í febrúar 2009 í 10% nú. Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þó sveiflast örlítið í afstöðu sinni til Steingríms J. Í desember 2008 sögðustu 12% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins treysta honum. Eftir að vinstri stjórnin var mynduð í febrúar 2009 fór traustið þverrandi en jókst þó aftur fram að maí 2010 þegar traust Steingríms J. mældist aftur um 12% meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Nú er það komið niður í 4,6%.