Endurreistu bankarnir þrír, Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki, hafa allir komið fram með tillögur sínar um hvernig leysa megi úr skuldavanda einstaklinga og fjölskyldna. Í tillögunum er öðru fremur horft til þess að leysa úr miklum skuldavanda þeirra sem tóku gengisbundin lán. Höfuðstóll þeirra hefur hækkað mikið vegna hruns krónunnar.

Arion banki býður upp á róttækustu leiðina þegar kemur að lækkun skulda. Samkvæmt henni er höfuðstóll lána lækkaður niður í sem nemur 110% af markaðsvirði eignar. Í sumum tilfellum, sérstaklega þegar horft er til skulda vegna kaupa eða bygginar á dýrum einbýlishúsum, getur höfuðstóll lána lækkað um tugi milljóna.

Skuldi einstaklingur 55 milljónir vegna gengisbundins húsnæðisláns, svo dæmi sé tekið, vegna eignar sem nú er metin á 30 milljónir, en var áður metin á 45, getur viðkomandi fengið um 22 milljóna lækkun á höfuðstól lánsins með leiðinni sem býðst hjá Arion banka. Samhliða höfuðstólslækkun er síðan hægt að létta greiðslubyrði á hverjum mánuði.  Hvorki Landsbankinn né Íslandsbanki bjóða upp á þessa leið.

Róttækast hjá Arion banka

Ljóst er að þessi leið Arion banka er róttækasta skuldalækkun sem einstaklingar geta fengið vegna skulda sem hækkað hafa mikið vegna hruns krónunnar. Nokkur umræða var um það fyrr í vetur, þar á meðal á Alþingi, að aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna yrðu að vera samræmdar svo að jafnræðis yrði gætt.

Aðgerðir stjórnvalda um greiðslujöfnun, sem í raun fela í sér að létta á mánaðarlegri greiðslubyrði með lengingu lánstíma, tóku mið af því að gætt yrði jafnræðis. Aðgerðir bankanna eru mun sveigjanlegri og ætlaðar til þess að koma til móts við þarfir hvers og eins. Ljóst er að þeir sem eru í mestum vanda, meðal viðskiptavina Arion banka, njóta góðs af þeim möguleika sem Arion banki býður sbr. fyrrnefnda leið um lækkun höfuðstóls skuldar niður í 110% af markaðsvirði.

Allir bankarnir bjóða upp á að lækka höfuðstól, miðað við núverandi gengisvísitölu, um 25 til 30%. Lánunum er um leið umbreytt í óverðtryggð lán. Arion banki býður viðskiptavinum sínum upp á 6% vexti í þrjú ár eftir breytingu, Íslandsbanki 7% í eitt ár en Landsbankinn býður upp á rúmlega 9% vexti. Meiri áhersla er lögð á það hjá Landsbankanum að breyta gengisbundnum lánum í verðtryggð lán.

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu 22. Desember hyggst Íslandsbanki bjóða fyrirtækjum upp á sérhæfð úrræði sem m.a. fela í sér lækkun höfuðstóls lána, líklega um 25 til 30%, eftir áramót. Mikil þörf er á endurskipulagningu á fjárhag fyrirtækja sem eru í viðskiptum við stóru viðskiptabankanna þrjá. Um 20% af fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við Íslandsbanka þurfa ekki á neinni aðstoð að halda en mikill meirihluti, eða um 80%, þurfa a.m.k. á einhverri hjálp að halda, þar af sum hver mjög mikilli.