Embætti sérstaks saksóknara yfirheyrði sjö einstaklinga og framkvæmdi húsleit á  þremur stöðum í gær í tengslum við rannsókn á ýmsum ætluðum lögbrotum sem áttu sér stað innan Landsbankans fyrir bankahrun. Á meðal þeirra sem hafa verið yfirheyrðir er Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans.

Á meðal þeirra mála sem eru til rannsóknar eru kaup á hlutabréfum í Landsbankanum af hálfu félaga sem héldu um kauprétti starfsmanna Landsbankans og lánveitingar til þeirra félaga. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um þessi félög í fréttaskýringu í maí 2010. Hún verður endurbirt í þremur hlutum á vef blaðsins í dag. Þetta er fyrsti hluti.

Framandi félög látin kaupa mikið magn af bréfum í Landsbankanum

Átta aflandsfélög í eigu Landsbankans, sem stofnuð voru utan um kauprétti starfsmanna, voru látin kaupa alls 13,2% hlut í bankanum sem gerðu þau samanlagt að næststærsta eiganda hans. Öll félögin lutu stjórn æðstu stjórnenda Landsbankans án þess að smærri hluthafar, fjárfestar eða eftirlitsaðilar hefðu hugmynd um það, enda var þess aldrei getið í ársskýrslum né tilkynnt um það á markaði. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þar segir orðrétt að „Landsbankinn kom hlutabréfum sem ætluð voru til að mæta skuldbindingum vegna kaupréttarsamninga stafsmanna fyrir í um átta aflandsfélögum og virðist það hafa verið gert í því skyni að komast hjá flöggunarskyldu. Ekki verður annað séð en að öll félögun hafi í reynd lotið sömu stjórn. Þannig var t.d umboðum safnað frá stjórnum allra félaganna, sem voru í höndum lögmanna á aflandssvæðum, til að starfsmaður Landsbankans gæti farið með atkvæðarétt félaganna á aðalfundi bankans vorið 2007. Upplýsingar um þessi stjórnunarlegu yfirráð Landsbankans á félögunum komu ekki fram gagnvart fjárfestum, smærri hluthöfum og eftirlitsaðilum."

Skulduðu um 22 milljarða

Félögin átta voru skráð í Panama, á Tortóla eða Guernsey og hétu flest öll framandi nöfnum sem erfitt var að tengja við Landsbankann. Upphaflega fengu þau öll lán fyrir kaupum á hlutabréfum í Landsbankanum hjá bankanum sjálfum.

Síðla árs 2006 var fjármögnun þeirra þó færð að mestu leyti til annarra banka. Sex félög, Kargile Portfolio, Proteus Global Holding, Kimball Associated, Marcus Capital, Peko Investment og LB Holding, voru öll fjármögnuð af Straumi, sem var að mestu leyti í eigu Björgólfsfeðga, kjölfestufjárfesta í Landsbankanum. Á móti lánaði Landsbankinn til að fjármagna kauprétti starfsmanna Straums. Zimham var fjármagnað af Glitni og Empennage af Kaupþingi. Bankinn gaf út sjálfskuldarábyrgð vegna þessara skuldbindinga og tók því ábyrgð á greiðslu lánanna sjálfur. Heildarlánveitingar til þeirra námu samtals 21,6 milljörðum króna við fall bankanna.

Félögin átta seldu þó aldrei bréfin sem þau héldu á til baka þegar kom að innlausn kaupréttarsamninganna. Því virðist upprunalegur tilgangur þeirra hafa vikið fyrir öðrum hagsmunum þegar leið að bankahruni. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er til dæmis fjallað um að 20% af kaupréttarsamningum starfsmanna Landsbankans hafi verið til innlausnar í desember 2007. Samningarnir voru þó ekki efndir á þeim tíma.

Hindruðu lækkun bréfa

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, sem skrifaði undir alla kauprétti til starfsmanna, var spurður um ástæður þessa í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni. Þar sagði hann að "óheppilegt hefði verið að lykilstarfsmenn væru að innleysa hagnað í desember 2007 vegna kaupréttanna svona hver í kapp við annan. Bankinn hefði ekki haft svigrúm á þeim tíma til að lána þeim fyrir kaupum vegna kaupréttanna, hvorki til að standa skil á skattgreiðslum vegna innlausnarinnar né til að hafa í bréfin áfram."

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að "af orðum bankastjórans virðist mega ráða að stjórn bankans hafi sjálf viljað hafa stjórn á því hvernig sala á bréfunum fór fram á markaði eftir að kaupréttir væru innleystir." Rannsóknarnefndin leiðir að því líkur að þessi ráðstöfun bankans "kunni að hafa komið í veg fyrir lækkun á verði hlutabréfa Landsbankans á markaði".

Í skýrslunni segir að Landsbankinn hafi líka beitt þessum aðferðum til að komast hjá flöggunarskyldu vegna eignarhalds á bréfum í bankanum sjálfum. Um hugsanlegar ástæður þessa fyrirkomulags segir að þar komi "helst til greina að þar hafi ráðið markmið um: að stækka eiginfjárgrunn Landsbankans; að hækka verð á hlutabréfum í Landsbankanum með kaupþrýstingu sem myndaðist vegna bréfa er keypt voru á markaði; að komast hjá yfirtökuskyldu Samsonar eignarhaldsfélags vegna útgáfu kaupréttarsamninga; og komast hjá lækkun eiginfjárgrunns Landsbankans".

Tryggði yfirráð Samson

Ljóst er á framburði lykilstarfsmanna Landsbankans fyrir rannsóknarnefndinni að kaup "geymslufélaganna" á hlutabréfum í bankanum tóku alltaf mið af því að verja stöðu Samsonar, aðaleiganda hans. Í skýrslunni stendur að "ákvörðun stjórnenda og kjölfestufjárfesta bankans að fjármagna hlutabréfakaup á eigin bréfum [...] tryggði kjölfestufjárfesti, eignarhaldsfélaginu Samson ehf., óbreytt yfirráð í bankanum. Ef bankinn hefði ekki fjármagnað og/eða gengist í ábyrgðir fyrir þann 13,2% hlut í honum sjálfum [...] hefði eignarhaldsfélagið Samson ehf. mögulega getað misst yfirráð í bankanum."

Í ályktunum rannsóknarnefndar er því haldið fram að hinir óinnleystu kaupréttarsamningar starfsmanna Landsbankans hefði haft „hagfelld áhrif á ítök kjölfestufjárfestanna í Landsbankanum.“