Ítarlega er farið yfir áhættu vegna Icesave-samningsins í umsögn GAM Management fyrir fjárlaganefnd Alþingis.Samkvæmt umsögninni er enn fyrir hendi umtalsverð áhætta fyrir íslenska ríkið. Seðlabankinn telur að lausn Icesave-deilunnar geti styrkt stöðu landsins á alþjóðlegumfjármagnsmörkuðum.

Enn er fyrir hendi umtalsverð áhætta við mat á mögulegri greiðslubyrði ríkisins fari svo að ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans verði staðfest á grundvelli nýrra Icesave-samninga, að mati Guðmundar Björnssonar verkfræðings og Valdimars Ármanns, hagfræðings og fjármálaverkfræðings, hjá GAM Management hf. Fjárlaganefnd Alþingis óskaði eftir umsögn GAM vegna umfjöllunar nefndarinnar um Icesave-samninginn sem undirritaður var 8. desember sl. af hálfu Breta, Hollendinga og Íslendinga, en hann er háður samþykki Alþingis. Ekki er ljóst enn hvenær fjárlaganefnd Alþingis lýkur umfjöllun um málið en stefnt er að því að gera það sem fyrst.

Áhættuþættirnir snúa að fjórum þáttum samkvæmt ítarlegri umsögn GAM. Það er endurheimtuáhættu úr búi Landsbankans, gengisáhættu vegna skuldbindinga í erlendri mynt, vaxtaáhættu og síðan áhættu er tengist efnahagslegum þáttum.

Greiðslujöfnuður fremur en ríkisfjármál

Ef Icesave-samningurinn á ekki að verða íslenska ríkinu of þungur í skauti er jákvæður vöruskiptajöfnuður til framtíðar litið afar mikilvægur, þ.e. að verðmæti útflutnings sé mun meira en innflutnings, samkvæmt umsögn GAM. Þegar það er metið hvort ríkið ráði við greiðslubyrði vegna ríkisábyrgðar á Icesave- skuldum Landsbankans er ekki síst horft til greiðslujöfnuðar. Í umsögn GAM segir meðal annars: „Kostnaður vegna Icesave-samkomulagsins skiptir mun meira máli fyrir greiðslujöfnuð landsins fremur en ríkisfjármálin ein og sér þar sem greiðslurnar eru í erlendri mynt og gjaldeyrisjöfnuður landsins er knappur. Þó hlutfall af útflutningstekjum sé tiltölulega lágt eða í kringum 1-2%, er hlutfallið hærra af vöru- og þjónustujöfnuði. Í öllum tilfellum þarf að greiða háa greiðslu strax árið 2011 sem verður um 12% af vöru- og þjónustujöfnuði.“

Kostnaður ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðar á Icesave verður á bilinu 26 til 233 milljarðar króna að nafnvirði, samkvæmt fjórum sviðsmyndum sem GAM fjallar um í umsögn sinni og fjallað er um sérstaklega á meðfylgjandi mynd og texta um hverja sviðsmynd fyrir sig.

Styrkir stöðu erlendis

Umsögn Seðlabanka Íslands var gerð opinber seinnipartinn í gær eftir að hún var kynnt fyrir fjárlaganefnd Alþingis. Seðlabanki Íslands telur sterk rök vera fyrir því nú að semja um Icesave, þrátt fyrir óvissu um efnahagslega þætti er samningunum tengjast. Í umsögninni kemur fram að erfitt sé að segja til um þróun efnahagsmála til langrar framtíðar, en þrátt fyrir það vegi bætt aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum upp óvissuþætti í samningunum. Einnig sé mikilvægt að hafa það í huga að úrskurður EFTA-dómstólsins, komi Icesave-deilan til kasta hans, gæti fallið Íslandi í óhag og þar með sett Ísland í mun verri stöðu en samningurinn nú segir til um.

Icesave-útreikningar GAMMA
Icesave-útreikningar GAMMA
© None (None)

Sviðsmynd 1: Gert er ráð fyrir auknum forgangi í útgreiðslur úr þrotabúi, þ.e. að hið svokallaða „Ragnar Hall“ ákvæði falli TIF í hag. Metið er að heildarkostnaður við samningana lækki sem nemur um 30 ma. króna. Ástæðan er hraðari niðurgreiðsla höfuðstóls og sparnaður við vaxtakostnað. Samhliða lækkar gjaldeyrisáhætta. Hægt er að túlka sviðsmyndina sem hraðari og hærri endurheimtur en áætlun skilanefndar gerir ráð fyrir. Að auki er gert ráð fyrir 2% styrkingu krónunnar á ársfjórðungi.

Sviðsmynd 2: Gert er ráð fyrir endurheimtum samkvæmt áætlun skilanefndar Landsbankans ásamt styrkingu krónunnar um 2% á ársfjórðungi út líftímann.

Sviðsmynd 3: Gert er ráð fyrir óbreyttu gengi gjaldmiðla og áætlun skilanefndar um endurheimtur.

Sviðsmynd 4: Gert er ráð fyrir 2% veikingu krónunnar á ársfjórðungi út líftímann ásamt því að fyrsta greiðsla úr þrotabúi berist ekki fyrr en 1. janúar 2012 ásamt því að innheimtur úr þrotabúi lækki um 10% frá áætlun skilanefndar. Niðurstaða er hærri mörk heildarkostnaðar, 233 ma.