Ef marka má innflutning síðustu mánaða og samanburð við þróun fyrri ára má ætla að nýskráningar fólksbíla verði um 2000 á þessu ári. Fari svo verða nýskráningar í ár aðeins um þriðjungur þess sem minnst hefur verið á síðustu tveimur áratugum.

Samkvæmt gögnum Umferðarstofu hafa nýskráningar fólksbíla ekki verið færri á síðustu tveimur áratugum en á árinu 1994 þegar þær voru tæplega 6300. Nýskráningar náðu hins vegar hámarki árið 2005 þegar rúmlega 22000 fólksbílar voru nýskráðir hér á landi. Ári síðar voru nýskráningarnar nálægt tuttugu þúsund og um 18500 árið 2007. Nýskráningar fólksbíla eru að sjálfsögðu nánast jafnar innflutningi fólksbíla, hvort sem um er að ræða nýja eða notaða.

Gríðarleg breyting við fall krónunnar í fyrra

Gríðarleg breyting varð við fall krónunnar í fyrra en þá hófst samdráttartímabil í bílainnflutningi og nýskráningar féllu hratt. Þetta má sjá á meðfylgjandi línuriti sem sýnir breytingar á þriggja mánaða meðaltali í nýskráningum fólksbíla.

Um 90% samdráttur frá því í haust

Eins og sést á línuritinu hefur samdrátturinn verið um 90% frá því bankarnir féllu í haust og af nýjustu tölum Umferðarstofu verður ekki séð að markaðurinn sé að taka við sér. Í prósentum talið mun samdrátturinn á næstu mánuðum hins vegar að öllum líkindum vera minni en verið hefur þar sem samdráttarins sem hófst í fyrravor fer þá að gæta í samanburðinum.

448 fólksbílar nýskráðir þar sem af er ári

Tíunda apríl, en gögn Umferðarstofu ná til þess dags, voru eitt hundrað dagar liðnir af árinu. Þá höfðu samtals verið nýskráðir 448 fólksbílar. Ef ekki væri gert ráð fyrir árstíðasveiflum mætti ætla að nýskráningar í ár yrðu aðeins rúmlega 1600. Í bílasölu hefur hins vegar almennt verið árstíðasveifla og sumarið hefur reynst drýgsti tíminn. Gengisþróunin vegur á móti þessum áhrifum en engu að síður voru þau til að mynda greinileg í fyrrasumar.

Langminnstu umsvif í að minnsta kosti tuttugu ár

Þegar tekið er mið af þessari árstíðasveiflu og gert ráð fyrir að gengi krónunnar taki engar kollsteypur benda útreikningar Viðskiptablaðsins til þess að nýskráningar fólksbíla verði um eða rúmlega 2 þúsund í ár. Gangi þetta eftir myndi þetta þýða langminnstu umsvif í bílasölu hér á landi í að minnsta kosti tvo áratugi. Til samanburðar má nefna að í samdrættinum á fyrri hluta síðasta áratugar, á árunum 1993 og 1994, voru rúmlega 6 þúsund bílar nýskráðir hvort ár. Það eru um þrefalt fleiri nýskráningar en útlit er fyrir að verði í ár.