Traust almennings til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, hefur lítið breyst síðasta árið en hefur þó lækkað lítillega frá því að hann tók við sem formaður í byrjun árs 2009.

Þetta sýnir ný könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum.

Rúmlega 15% landsmanna ber „frekar eða mjög mikið“ traust til Sigmundar Davíðs samkvæmt könnuninni á meðan 52% sögðust bera  „frekar eða mjög lítið“ traust til hans.

Traust almennings til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, frá des. 2008.
Traust almennings til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, frá des. 2008.
© vb.is (vb.is)

Á myndinni hér að ofan má sjá þróunina á trausti almennings til Sigmundar Davíðs frá því að hann tók við sem formaður Framsóknarflokksins. Til að byrja með fjölgaði þeim hratt sem sögðust bera lítið traust til hans en þeim hefur þó farið fækkandi á ný. Í janúar 2009 sögðust 25% aðspurðra í sambærilegri könnun MMR bera lítið traust til Sigmundar Davíðs en í maí í fyrra sögðust tæp 58% aðspurðra bera lítið traust til hans. Sem fyrr segir hefur þeim þó fækkað lítillega og nú segjast 52% bera lítið traust til hans.

Í janúar 2009 sögðust 23% aðspurðra treysta Sigmundi Davíð en þeir eru nú rúmlega 15%.

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á trausti til Sigmundar Davíðs flokkað eftir stuðningi almennings við stjórnmálaflokka. Þar sést að traust til Sigmundar Davíðs meðal þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn hefur minnkað frá því að hann tók við sem formaður, úr 78% í 68%.

Traust almennings til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, flokkað eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, frá des. 2008.
Traust almennings til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, flokkað eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, frá des. 2008.
© vb.is (vb.is)

Traust í garð Sigmundar Davíðs meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hefur þó aukist á sama tíma, úr 18% í tæp 23%. Traust stuðningsmanna Samfylkingarinnar til Sigmundar Davíðs hefur hríðlækkað á sama tíma, úr tæpum 18% í 2,5%.

Athygli vekur þó að í dag segjast 0,0% stuðningsmanna Vinstri grænna (VG) treysta Sigmundi Davíð. Í byrjun árs 2009 sögðust tæp 24% þeirra sem styðja VG bera traust til Sigmundar Davíðs.