Eftir að gengi íslensku krónunnar fór að veikjast um mitt síðasta ár fór að halla að í rekstri Landhelgisgæslunnar en stærstu hluti rekstargjalda Gæslunnar er í erlendri mynt.

Eins og fram kom í gær hefur Landhelgisgæslan nú sagt upp þremur þyrluflugmönnun til að skera niður í rekstrarkostnaði. Uppsögn eins þyrluflugmannsins tekur gildi í byrjun sumar en hinna tveggja í haust.

Telja má líklegt að með uppsögnum þyrluflugmanna muni þjónusta og geta flugáhafnar Gæslunnar á hafi úti skerðast verulega en frá því að uppsagnirnar taka gildi verður ekki með góðu móti hægt að halda úti tveimur þyrluáhöfnum á vakt hverju sinni líkt og verið hefur frá því að bandaríkjaher hvarf af landi brott með sínar þyrlur.

Það skerðir möguleika Gæslunnar á björgun eða sjúkraflutningi á hafi úti verulega.

Leiga á þyrlum eykst um 300 milljónir króna milli ára

Eins og fyrr segir er stærstu hluti útgjalda Gæslunnar í erlendri mynt og því hafa gengisbreytingar haft töluverð áhrif á rekstur stofnunarinnar en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er kostnaðaraukningin í það heila um 615 milljónir króna á ári, þar af um 500 milljónir króna í erlendum útgjaldaliðum.

Dæmi um erlend útgjöld er leiga á þyrlum, tryggingar, eldsneyti, varahlutir og þjálfun flugáhafna erlendis.

Þannig hefur leiga á tveimur þyrlum, TF Gná af gerðinni Super Puma og TF Eir af gerðinni Aerospatiale Dauphin, aukist um 240 þúsund Bandaríkjadalir á ári eða um 30 milljónir króna, óháð gengisbreytingu.

Samkvæmt útreikningum Gæslunnar, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, var leigukostnaður við þyrlurnar tvær um rúmar 17 milljónir króna á mánuði en er nú rúmar 35 milljónir króna en gengisbreytingar orsaka þennan aukna kostnað. Á einu ári nemur hækkunin því um 220 milljónum króna.

Þá greiðir Gæslan einnig leiguverð á hvern flugtíma, 2.000 evrur á TF Gná og 800 evrur á TF Eir. Ef miðað er við 300 flugtíma á Gná og 600 flugtíma á Eir á ári þá hefur kostnaður aukist úr 102,6 milljónum króna í 183,6 milljónir króna eða um 81 milljón króna á ári.

Þá hafa varahlutir í önnur flugför Gæslunnar, þyrlunnar TF Líf og fokker flugvélarinnar TF Sýn hækkað um tæp 80% vegna gengisfalls krónunnar en það sama á við um önnur erlend útgjöld, svo sem þjálfun flugmanna, tæki og búnaðar vegna áhafna á þyrlum og fleira.

Með þessum tölum má gerir Gæslan ráð fyrir að heildarkostnaðaraukning vegna gengislækkunar nemi um 450 milljónum króna á ári en þá eru fyrrnefndi þættir taldir með, svo sem leiga og flugtími.

Auk þess er margvíslegur kostnaður sem greiðist í íslenskum krónum háður gengi og má þar nefna dagpeninga erlendis og fargjöld en mikið er um ferðir erlendis vegna alþjóðlegs samstarfs, smíða á nýrri flugvél og skipi og vegna þjálfunar flugáhafna.

En það eru fleiri kostnaðarþættir en leiga og varahlutir sem hafa aukist. Þannig hafa tryggingar á þyrlunum aukist um tæpar 50 milljónir króna að teknu tilliti til gengislækkunar.

Innlendur kostnaður hefur líka aukist

Landhelgisgæslan notar um 1.400.000 lítra af skipagasolíu á ári miðað við venjulegan rekstur.  Samkvæmt útreikningum Gæslunnar hefur notkunin hækkað um 28 milljónir króna á einu ári.

Þá er eldsneytisnotkun í flugi um 870.000 lítrar á ári og kostnaðarhækkun um 20 milljónir króna á ári en alls nemur hækkun á eldsneytiskostnaði Gæslunnar því um 48 milljónum króna á ári.

Almennar verðlagshækkanir hafa verið miklar en almenn innlend rekstrarútgjöld eru um 600 milljónir króna og ef miðað er við hækkun neysluverðsvísitölu hefur þessi kostnaður aukist um 108 milljónir króna. Þá gerir Gæslan ráð fyrir frekari hækkun í sínum útreikningum.

Ofangreindar hækkanir, jafnt innlendar sem og erlendar, nema því sem fyrr segir um 615 milljónum króna  á ári.

Tökum á þessu en reynum að viðhalda þjónstustigi, segir forstjórinn

Ofangreindum  kostnaðarhækkunum hefur ekki nema að hluta verið mætt með hækkun fjárveitinga en samkvæmt Fjárlögum 2008 er gert ráð fyrir rúmlega 2,3 milljörðum króna til rekstur Gæslunnar en á Fjárlögum 2009 renna rúmlega 2,7 milljörðum.

Fjárlagaaukning milli ára er því um 400 milljónir króna en sem fyrr segir hefur rekstrarkostnaður Gæslunnar aukist um 615 milljónir króna. Því þarf um 200 milljónir króna til að brúa bilið en ljóst er að eina leiðin til að ná niður erlendum kostnaði, sem er rúmlega 80% kostnaðarhækkunarinnar, er að fljúga minna og láta skipaflota Gæslunnar liggja við bryggju.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar segir í samtali við Viðskiptablaðið að þyrluflugmennirnir séu ekki einu starfsmennirnir sem fengið hafi uppsagnarbréf. Þannig hefur Gæslan þurft að segja upp sjö skipstjórnarmönnum, þremur vélstjórum, tíu hásetum og fimm starfsmönnum á skrifstofu til að ná niður rekstrarkostnaði.

Hann segir að allar aðgerðir stofnunarinnar miði að því að skerða ekki þjónustu eða möguleika Gæslunnar á leit & björgun.

Þá segir Georg að Landhelgisgæslan þurfi vissulega að skera niður eins og aðrar stofnanir. Gæslan eigi í fjárhagserfiðleikum og því þurfi að bregðast við með hagræðingu í rekstri.

„Við  tökum þessu og reynum að vinna úr þessu hvað best við getum,“ segir Georg í samtali við Viðskiptablaðið en bætir því við að allt kapp verði lagt á að halda úti þeirri viðbragðsgetu sem til þarf.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður aðeins hægt að halda úti einni þyrluvakt átta mánuði ársins og gera má ráð fyrir að þyrluáhöfn muni ekki leggja í leiðangur út fyrir 20 mílur frá ströndu þar sem ekki sé önnur áhöfn og þyrla til taks ef á þarf að halda.

Þetta er vissulega matsatriðið hverju sinni en það er ákvörðun flugstjóra þyrlunnar hvort haldið sé af stað í leiðangur en sú ákvörðun byggist á mati á aðstæðum, m.a. hvort möguleiki sé á björgun áhafnarinnar sjálfrar ef í harðbakkann slær.

„Það er enginn flugstjóri sem fer af stað lengst út á haf með áhöfn sína ef hann hefur ekkert back up til að láta bjarga sér,“ segir einn viðmælandi Viðskiptablaðsins.

„Kaninn var til taks hér áður fyrr og Gæslan að sama skapi ef þeir voru að sinna verkefni. Þetta var gott samstarf sem gekk í báðar átti en eftir að herinn fór hefur Gæslan verið með tvær áhafnir þannig að ein hafi möguleika á að bjarga hinni ef þess þarf.“