Velgengni tölvurisans Apple hefur verið gegndarlaus síðastliðin ár, jafnvel svo að talað er um það sem „kreppuhelt“ fyrirtæki. Engum blandast hugur um að farsæld fyrirtækisins má að mestu rekja til forystu Steve Jobs, hins goðsagnakennda forstjóra Apple, en hann er sá forstjóri einkafyrirtækis, sem flestir jarðarbúar geta nefnt með nafni, og hefur margoft verið útnefndur og verðlaunaður sem besti forstjóri heims. Reynslan er þó sem fyrr ólygnust og þegar horft er á hlutabréfaverð, sölutölur, ágóða og lausafé Apple blasir við að Jobs hefur náð einstökum árangri á þeim rúmu 13 árum, sem liðin eru frá því hann kom aftur að fyrirtækinu árið 1997, en það var þá við dauðans dyr að margra mati.

Heilsufarið vekur áhyggjur

Engum blöðum er því um það að fletta hversu miklu Jobs varðar heill Apple. Því brá mörgum í brún þegar greint var frá því árið 2004 að hann hefði greinst með krabbamein í brisi, sem alla jafna er einkar erfitt við að fást. Það var þó upprætt, en Jobs vildi sem minnst um það fjalla og taldi að heilsufar sitt væri einkamál. Ekki voru allir hluthafar á sama máli, enda mátti til sanns vegar færa að heilabú Jobs væri dýrmætasta „eign“ fyrirtækisins.

Heilsan var heldur ekki komin í gott lag, því árið 2008 tók hann að léttast mjög ört og árið 2009 gekkst hann undir lifrarígræðslu. Ekki fékkst nákvæmlega upp gefið hvernig á því stæði, ekki fremur en nú, að öðru leyti en því að hann vilji einbeita sér að heilsunni. Margvíslegar vangaveltur eru uppi um hvað veldur: til dæmis að líkaminn sé að hafna nýju lifrinni, að krabbi hafi eyðilagt hana og aukið líkur á meinvörpum í lungum, að ný aðgerð sé í bígerð o.s.frv., en um það veit enginn neitt. Það sefar ekki áhyggjurnar.

Skarð fyrir skildi

Hvernig sem því er farið spyrja menn hvort Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, sem enn á ný hefur tekið við starfsskyldum Jobs í veikindaleyfi, geti fyllt skarðið. Af fyrri afleysingum að dæma er ekkert að óttast um það hvað daglegan rekstur áhrærir, en fleiri óttast að Apple glati forystuhlutverki sínu, Cook sé einfaldlega ekki sami hugsjónamaðurinn og Jobs. Einu gildi þó Apple eigi aðra snillinga í röðum, hið sama hafi verið sagt þegar Steve Ballmer tók við Microsoft af Bill Gates, en hann hafi ekki fyllt þá skó. Apple geti vegnað vel í 1-2 ár undir stjórn Cook, en spurningin sé hvað gerist þá. Mun Tim Cook átta sig á því hvar pökkurinn verði þá og skauta í rétta átt?

Það er fremur hæpið, enda Jobs sterkari á því svellinu en allir aðrir. Á móti kemur að Steve Jobs hyggst ekki loka sig inni í veikindaleyfinu og koma áfram að stefnumótun Apple. Því þurfi ekki að óttast að Apple sökkvi í meðalmennsku á nýjan leik, nema auðvitað Jobs leggist lokaleguna.

Sumir eru bjartsýnir á gengi Apple, þrátt fyrir slík ótíðindi, og segja að Jobs hafi sett varanlegt mót á fyrirtækið; Apple verði leiðandi á sviði neyslutækni um langa hríð enn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.