Hversu mikið stendur eftir af elstu verðtryggðu lánunum til 40 ára og hversu mikið eru lánþegar búnir að greiða? Fyrstu 40 ára lánin voru veitt árið 1987 og var það hluti af kjarasamningum ársins 1986. Viðskiptablaðið hafði samband við Íbúðalánasjóð og óskaði eftir því að reiknað yrði út hversu mikið stæði eftir af 5 milljóna króna láni sem tekið var árið 1987 og alltaf hefur verið í skilum. Miðað var við vaxtastigið 3,5% sem mun hafa verið vaxtastig lána sem voru veitt árið 1987. Hefði verðbólga ekki verið nein allt lánstímabilið hefði lánþeginn þegar upp er staðið greitt samanlagt um 9,3 milljónir króna. Verðbætur miðast við lánskjaravísitölu en ekki vísitölu neysluverðs eins og tíðkast í dag.

Samanburður á verðtryggðu og óverðtryggðu láni
Samanburður á verðtryggðu og óverðtryggðu láni

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Til þess að gera langa sögu stutta hafa á þessum 292 mánuðum (rúmlega 24 árum) verið greiddar samanlagt rétt tæplega 14,7 milljónir króna sem skiptast þannig að heildarafborganir nema 2,2 milljónum króna, vextir af höfuðstól nema tæplega 3,5 milljónum, verðbætur nema tæpum 4 milljónum og vextir af verðbótum nema tæplega 5,1 milljón króna.

Ókomin verðbólga gæti skekkt

Uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins eru nú rétt tæplega 13 milljónir króna og skiptast þannig að af höfuðstól standa eftir 2,8 milljónir (eftirstöðvar nafnverðs) og uppsafnaðar verðbætur eru 10,2 milljónir. Þegar heildargreiðslur til þessa og uppreiknaðar eftirstöðvar eru lagðar saman er ljóst að lánþegi mun þegar upp er staðið ekki hafa greitt minna en tæpar 28 milljónir króna. Taka ber fram að þessar eftirstöðvar miðast við að verðbólga verði engin á þeim 16 árum sem eftir lifa lánstímans og sömuleiðis að ekki verði greiddir neinir vextir af þeim verðbótum sem ógreiddar eru. Ljóst er að þessir tveir þættir standast ekki raunveruleikann og því má gera ráð fyrir að eftirstöðvar séu í raun umtalsvert hærri en þær 13 milljónir sem nú eru. Ennfremur er ekki tekið tillit til eftirstöðva vaxta af höfuðstól sem nema rúmlega 841 þúsund krónum.

Svo allrar sanngirni í garð verðtryggingarinnar sé gætt ber að taka fram að vitaskuld væru heildargreiðslur til þess og eftirstöðvar óverðtryggðs láns einnig umtalsvert hærri þegar upp er staðið en þær 9,3 milljónir sem áðan voru nefndar. Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins næmu heildargreiðslur af 5 milljóna króna óverðtryggðu 40 ára láni, sem tekið væri á sama tíma og hitt lánið og með sömu raunvöxtum en breytilegum nafnvöxum til samræmis við verðbólgu (sem reiknuð er út frá sömu vísitölugildum lánskjaravísitölu og verðtryggða lánið), 12,2 milljónum króna. Tekið skal fram að miðað er við sömu mánaðarlegu afborganir og þeim sem gert er ráð fyrir í útreikningum Íbúðalánasjóðs. Eftirstöðvar væru eingöngu eftirstöðvar nafnverðs, þ.e. 2,8 milljónir króna, auk áðurnefndra eftirstöðva vaxta sem eru 841 þúsund krónur. Heildargreiðsla af óverðtryggða láninu næmi því þegar upp er staðið um 15,7 milljónum króna en þá ber að geta þess að ekki er reiknað með neinni verðbólgu það sem eftir lifir lánstímans.