Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum hefur fengið leyfi til að gera upp í evrum og nýtir sér það í nýbirtu uppgjöri síðasta árs. Í uppgjörinu kemur fram að 1,2 milljóna evra tap var á rekstri Vinnslustöðvarinnar í fyrra, en árið 2007 var hagnaður upp á 7 milljónir evra.

Tekjur jukust um 1,5 milljónir evra í rúmar 63 milljónir evra. Hagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, jókst um tæpar 2 milljónir og nam í fyrra 15,2 milljónum evra, sem gerir 24% framlegð.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði jókst umtalsvert á milli ára, eða um nær 5 milljónir evra. Neikvæður viðsnúningur fjármagnsliða var hins vegar um 19 milljónir evra sem olli því að tap fyrir skatta nam 5,7 milljónum evra, en árið áður hafði hagnaður fyrir skatta munið 8,6 milljónum evra. Neikvæður viðsnúningur fjármagnsliða skýrist aðallega af því að í fyrra var gengistap upp á 8 milljónir evra en árið 2007 var 3,7 milljóna evra gengishagnaður.

Breyting í evrur bjargaði eiginfjárhlutfallinu

Veltufé frá rekstri minnkaði um ríflega helming á milli ára og nam í fyrra 5,2 milljónum evra. Efnahagsreikningur félagsins dróst lítillega saman og eignir námu 92 milljónum evra í árslok. Eiginfjárhlutfall lækkaði á milli ára úr 29,6% í 26%.

Langtímaskuldir Vinnslustöðvarinnar nema tæplega 62 milljónum evra og þar af er innan við 1 milljón evra í íslenskum krónum. Eigið fé félagsins lækkaði úr 28,7 milljónum evra í 23,9 milljónir yfir árið í fyrra og eiginfjárhlutfallið lækkaði eins og áður sagði.

Ef Vinnslustöðin hefði ekki breytt uppgjöri sínu í evrur hefðu erlendu skuldirnar hækkað gríðarlega í krónum talið á kostnað eiginfjárstöðunnar. Með því að breyta bókhaldinu yfir í evrur má því segja að Vinnslustöðin hafi bjargað eiginfjárhlutfalli félagsins.

Sæmilegar rekstrarhorfur

Í frétt frá Vinnslustöðinni segir að rekstrarhorfur á þessu ári séu sæmilegar. Loðnuveiðar séu mikilvægar í rekstri félagsins og loðnubresturinn í vetur hafi því mikil áhrif á horfur ársins. Félagið hafi tekið við töluverðu magni af gulldeplu til bræðslu í vetur sem vegi lítillega upp loðnuleysið. Auk loðnubrests hafi afurðaverð hríðlælkkað á mörkuðum erlendis. Ljóst þyki að framlegð ársins 2009 verði lægri en hún var í fyrra.