Fréttastofur Ríkisútvarpsins auk íþróttadeildar hafa verið sameinaðar undir merki Fréttastofu RÚV. Í tilkynningu segir að markmiðið með sameiningunni sé að bæta fréttaþjónustu ríkisfjölmiðilsins í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum.

Óðinn Jónsson verður fréttastjóri RÚV, og áttatíu manns munu starfa á hinum sameiginlega miðli. Varafréttastjórar verða þau Broddi Broddason, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Margrét Marteinsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri segir betri  faglega og rekstrarlega yfirsýn fást fram með sameiningunni. „Starfsemin verður skilvirkari  og markvissari. Öllu afli hinnar sameinuðu fréttastofu verður beint í sama farveg , -  að veita almenningi eins góða og trausta fréttaþjónustu og hægt er í öllum okkar miðlum:  útvarpi, sjónvarpi og á vefnum,“ segir Páll.

„Stóran hluta daglegrar fréttavinnslu má hæglega samnýta fyrir alla miðlana. Það sem vinnst með slíkri hagræðingu má þá nýta til að auka sérhæfingu, efla fréttaskýringar og leita nýrra leiða til að miðla fréttum á þann hátt sem samtíminn krefst.“