Bæði fréttastofa RÚV og fréttastofa 365 miðla greiddu fyrir þá fulltrúa sem fjölmiðlarnir sendu til Úkraínu um síðustu helgi í sendiför með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra. „Fjölmiðlar greiddu fyrir sínar ferðir sjálfir, ráðuneytið tók engan þátt í því,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Á vegum 365 miðla fóru Heimir Már Pétursson fréttamaður og Valgarður Gíslason myndatökumaður. Á vegum RÚV fóru Björn Malmquist fréttamaður og Freyr Arnarson tökumaður. Á vegum utanríkisráðuneytisins fór Gunnar Bragi Sveinsson ráðherra, Sunna Gunnars Marteinsdóttir aðstoðarmaður, Urður Gunnarsdóttir upplýsingafulltrúi auk tveggja starfsmanna af alþjóða- og öryggisskrifstofu.