Sátt Eimskipa við Samkeppniseftirlitið virðist hafa komið Samskipum nokkuð á óvart ef marka má frétt The Loadstar. Þar er haft eftir talsmanni félagsins að þau hafi frétt af sáttinni í fjölmiðlum og að ekki liggi fyrir hvaða áhrif sáttin muni hafa á mál félagsins hjá eftirlitinu.

Þann 16. júní síðastliðinn tilkynnti Eimskip að félagið hefði gert sátt við Samkeppniseftirlitið. Með henni viðurkenndi félagið samskipti og samráð við Samskip á tímabilinu 2008-2013 og að sú háttsemi hefði falið í sér alvarleg brot gegn samkeppnislögum og EES-samningnum. Auk þess að viðurkenna brot féllst félagið á að greiða 1.500 milljónir króna í stjórnvaldssekt.

„Þar sem mál okkar eru enn til rannsóknar, auk þess að við höfum engar frekari upplýsingar undir höndum en fram hafa komið í fjölmiðlum, þá getum við ekki tjáð okkur sem sakir standa,“ hefur The Loadstar eftir talsmanni Samskipa. Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Eimskipa, vildi ekki ræða við The Loadstar þegar eftir því var leitað.

Frá því að skrifað var undir sáttina hefur gengi Eimskipa verið á mikilli siglingu. Verð hlutarins stóð í 287 þann 16. júní en þegar þetta er ritað er hluturinn falur á 385 krónur. Er þar á ferð rúmlega 34% hækkun á tæplega þremur vikum.