Að sögn Þórðar Kárasonar, framkvæmdastjóra Papco, hefur gengið hægt að hefja útflutning félagsins til Færeyja eins og áform félagsins stóðu til, meðal annars vegna hás fjármagnskostnaðar og gjaldeyrishafta. ,,Færeyingar þyrftu að vera fleiri,” sagði Þórður í samtali við Viðskiptablaðið.

Félagið leitaði leiða í upphafi árs um að hefja útflutning til Færeyja en að sögn Þórðar hefur það gengið hægt. ,,Það er mikilvægt fyrir okkar félag að fá gjaldeyri en það hefur líka verið erfitt fyrir okkur að fá fjármögnun á það hráefni sem við erum að flytja inn vegna þess að við höfum ekkert kredit erlendis hjá okkar birgjum. Við þurfum enn að staðgreiða gagnvart þeim. Það er mjög erfitt og því verða allar stækkanir á félaginu erfiðar vegna þes að það kallar á fjármögnun,” sagði Þórður en hann sagði að honum þætti bankakerfið ekki standa nógu vel við bakið á fyrirtækjum í iðnaði.

Þórður sagði að ákveðnar hömlur væru á að félagið gæti stækkað mikið meira vegna þess að fjármögnumn er erfið. Þó að hann fengi stórann samning um útflutning þá ætti hann erfitt með að fjármagna hann. “Við höfum ekki lánstraust erlendis sem þýðir að við þurfum að fyrirframgreiða allt okkar hráefni og öll okkar aðföng. "

Íslendingar sækja í íslenskar vörur

,,Við finnum hins vegar fyrri mikilli aukningu og að íslenskir neytendur séu að velja íslenskar vörur sem er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskan iðnað. Við erum að vinna í gæðamálum og uppfærslum á vélum til að auka gæði enn frekar.”

Þórður sagðist gera ráð fyrir að veltuaukning yrði hjá Papco á þessu ári svo framarlega sem gengið verður stöðugt. Félagið hefur undanfarið verið að gera stóra samninga við opinber fyrirtæki og stofnanir og sagði hann að þeir hefðu fundið fyrir miklum stuðningi þaðan. Þannig hefði félagið nýlega gangið frá samningi við Reykjavíkurborg og Akureyrabæ um að þjónusta stofnanir.