Varðskipið Freyja er nú komið á flot í litum Landhelgisgæslunnar í Rotterdam. Varðskipið var tekið upp í slipp fyrr í mánuðinum þar sem það var málað og unnið að minniháttar lagfæringum. Áhöfn Freyju er komin til Hollands og undirbýr heimsiglinguna.

Gert er ráð fyrir að skipið komi til Siglufjarðar þann 6. nóvember.

„Með tilkomu Freyju mun Landhelgisgæslan hafa á að skipa tveimur afar öflugum varðskipum, sérútbúnum til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland,“ segir í frétt Landhelgisgæslunnar.

Varðskipið Freyja er að miklu leyti sambærilegt varðskipinu Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en það býr til að mynda yfir mun meiri dráttar- og björgunargetu en Þór. Varðskipið Freyja er 86 metra langt og 20 metra breitt.