Freyja framtakssjóður slhf. hefur keypt 15,8% hlut í Arctic Adventures af núverandi hluthöfum félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Nýverið var sagt frá því að Arctic Adventures hygðist sameinast Into the Glacier ehf. Auk þess keypti félagið hlut í fjórum öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum í eigu ITF1 en í þeim hópi er félagið Lava Tunnel ehf. sem býður upp á ferðir inn í Raufarhólshelli. Stefnt er að því að skrá Arctic Adventures í Kauphöll innan tveggja ára.

„Við erum gríðarlega ánægð með að koma inn í hluthafahóp Arctic Adventures á þessum tímapunkti og spennt fyrir að vinna með öðrum hluthöfum og öflugu starfsfólki að áframhaldandi vexti félagsins,“ er haft eftir Margit Roberet, framkvæmdastjóra Freyju, í tilkynningunni.

„Stjórnendur og hluthafar Arctic Adventures fagna mjög aðkomu Freyju að félaginu. Í aðdraganda kaupanna fundum við að Freyja hefur trúa á þeirri langtímavegferð sem félagið er á, með stefnu á áframhaldandi stækkun hérlendis sem og þau tækifæri sem við höfum komið auga á erlendis. Rekstur félagsins hefur gengið vel þrátt fyrir verri ytri aðstæður, en sú rekstrarniðurstaða hefur náðst með öflugu starfsfólki og skýrri stefnu í sölu og markaðsmálum,“ segir Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures.

Arctic Adventures er eitt af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins en velta félagsins á ársgrundvelli er um sjö milljarðar króna. Freyja er síðan átta milljarða framtakssjóður sem fjárfestir í óskráðum félögum með góða rekstrarsögu að því að fram kemur í tilkynningunni.