Færeyjabanki hefur ákveðið að efla tryggingastarfsemi sína með því að kaupa 51% hlut í Verði tryggingafélagi. Blaðamannafundur vegna kaupanna hefur verið boðaður kl. 10. Fæeyjabanki á fyrir tryggingafélagið Trygd í Færeyjum.

Í tilkynningu vegna kaupanna kemur fram að með þessu er Færeyjabanki (Føroya Banki) að efla tryggingastarfsemi sína á Norðurlöndunum. Eigið fé varðar verður eflt og mun Færeyjabanki leggja bankanum til 600 milljónir króna í nýju hlutafé og eldri hluthafar munu koma inn með 100 milljónir.

Sömuleiðis mun Færeyjabanki kaupa bréf af núverandi hluthöfum að andvirði 550 milljóna króna þannig að heildarfjárfesting bankans er upp á 1.150 milljónir króna. Núverandi hluthafar, Landsbankinn, SP Fjármögnun og Byr hafa allir samþykkt að styðja við Vörð sem virkir hluthafar að því er segir í tilkynningu. Seljendur hafa það sem valkost að selja eftirstandandi hluti fyrir mitt ár 2012.

Kaupin eiga eftir að fá samþykki fjármálayfirvalda á Íslandi og í Danmörku. kaupin munu ekki hafa áhrif á afkomu Færeyjabanka á þessu ári.

Viðbót kl. 9.27

Í tilkynningu kemur fram að Vörður hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum. Síðastliðin þrjú ár hefur félagið tvöfaldast að stærð og eykst nú styrkur þess til áframhaldandi sóknar á íslenskum tryggingamarkaði. Viðskiptavinir Varðar eru nú liðlega 28.000 og er markaðshlutdeild félagsins á einstaklingsmarkaði um 13% en heildarhlutdeild í iðgjöldum á vátryggingamarkaði er um 9%. Hagnaður er af rekstri Varðar fyrstu níu mánuði árins 2009 í samræmi við áætlanir félagsins segir í tilkynningu. Hjá Verði tryggingum starfa ríflega 50 manns.