Verð á vörum sælgætisgerðarinnar Freyju munu hækka um 5,9% í upphafi næsta árs. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Freyja hefur sent á viðskiptavini sína. Verð Freyju hækkuðu síðast í september 2018.

Í póstinum kemur fram að Freyja hafi undanfarið ár róið að því marki að lækka allan kostnað hjá sér og hagrætt í rekstri með það að marki að halda verðum niðri. Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir hingað til sé hækkunin óumflýjanleg í ljósi hækkunar á helstu kostnaðarliðum.

Dæmi eru tekin um að verð á kakómassa hafi hækkað um ríflega fjórðung og kakósmjör og sykur hækkað um 17%. Hveiti og kornkúlur hafi hækkað um tæplega einn sjöunda og þá hafi umbúðir einnig hækkað. Þessu til viðbótar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,7% og launavísitala um 5,3%.

„[F]ramleiðslukostnaður hefur aukist verulega sem og launakostnaður. Helstu innlendu og erlendu birgjar fyrirtækisins hafa einnig hækkað listaverð á síðastliðnu ári og margir tilkynnt um frekari hækkanir frá byrjun árs 2020,“ segir í skeytinu.

Hækkunin mun taka gildi þann 6. janúar 2020.