„Það er sitt hvað sem hefur farið aflaga í kringum hátíðarhöld eða stórviðburði, aldrei stórtjón en ég er seinheppinn, segir Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamaður á Rúv.

Freyr Gígja segir farir sínar ekki sléttar af jólahaldinu og rifjar upp eitt aðfangadagskvöld þegar eitt og annað gekk á afturfótunum. Frey Gígju finnst þó verst þegar vesenið kemur niður á matnum. „Það var á aðfangadagskvöld fyrir þremur árum síðan þegar ég brenndi forláta hreindýrahrygg til kaldra kola, en hann hafði verið sendur fjölskyldunni frá góðum manni á Egilsstöðum. Það vildi okkur til happs að við vorum líka með hreindýralæri en þetta var stórfjölskyldan svo allir fengu svona heldur franskan léttan disk í aðalrétt. Meðlætið er líka alltaf svo drjúgt en ég held að einhverjir hafi þurft að metta sig á konfektmolum því í þessari sömu máltíð gerðist eftirfarandi: Ég þeytti rjóma í waldorfsalat, sletti einhverju af rjómanum á gólfið en tók ekki eftir því. Þegar búið var að setja döðlur, súkkulaði, vínber, perur, valhnetur, viskí og allt í salatið gekk ég með það fram í stofu. Nema á leiðinni rann ég á rjómaklessunni á gólfinu og salatið flaug eins og það lagði sig á vegginn, og lak hratt og vel niður á gólf.“

Nánar er fjallað um allt sem tengist hátíðarklúðri í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.