Freyr Þórðarson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Arion banka. Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að Freyr hefur undanfarin fjögur ár starfað hjá Kaupþingi, einkum við endurskipulagningar- og endurheimtuverkefni í skandinavíska eignasafni Kaupþings. Freyr sat í stjórn Arion banka undanfarið ár og í lánanefnd stjórnar bankans.

Freyr lauk háskólaprófi í fjölmiðlafræði í Austurríki árið 1999, BS-prófi í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík árið 2003 og útskrifaðist með MBA-gráðu frá sama skóla árið 2010. Hann hefur starfað í fjármála- og bankageiranum frá árinu 2001, bæði á Íslandi og erlendis, lengst af hjá Straumi Fjárfestingarbanka, en einnig hjá Gnúpi fjárfestingarfélagi og Íslandsbanka/Glitni.