Virðisbrævamarknaður Føroyja (VMF) í samstarfi við Kauphöllina á Íslandi hélt í morgun fjárfestaþing (e. Capital Markets Day) að Hilton Reykjavík Nordica.

Á fjárfestaþinginu kynntu forstjórar þeirra færeysku félaga sem skráð eru í Kauphöllinni, þ.e. Atlantic Airways, Atlantic Petroleum, Eik Bank og Føroyja Banki, íslenskum fjárfestum og öðrum markaðsaðilum starfsemi sína og framtíðarsýn.

„Það er mikið ánægjuefni að færeyskir vinir okkar skulu koma til landsins til að kynna sig sem öflugan fjárfestingarkost fyrir íslenska fjárfesta,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar í tilkynningu frá Kauphöllinni.

„Við höfum átt farsælt samstarf við VMF frá byrjun og færeysk fyrirtæki hafa öðlast aukin tækifæri til sýnileika á íslenska markaðnum, nú þegar þau mynda um 30% af honum. Vera Þeirra hér treystir grunnstoðir hlutabréfamarkaðarins og við vonum sannarlega að fleiri fyrirtæki frá Færeyjum sjái sér hag í landnámi á Íslandi. Við tökum þeim fagnandi.“

Sigurd Poulsen, forstjóri VMF segist vera afar ánægður með að koma til Íslands og kynna þau færeysku félög sem skráð eru í Kauphöllina.

„Við teljum að framtíðarhorfur séu bjartar hér á landi og erum þess fullviss að færeysk fyrirtæki séu góð viðbót í eignasöfn íslenskra fjárfesta. Við erum einnig vongóð um frekari skráningar færeyskra félaga hér á landi í náinni framtíð,“ segir Poulsen í tilkynningunni.

Fyrsta færeyska félagið, Atlantic Petroleum var skráð í Kauphöllina um mitt ár 2005 en þau hlutabréf voru þau fyrstu erlendu sem voru skráð hér. Skráningin varð eftir gerð viljayfirlýsingar árið 2003 á milli Kauphallarinnar og VMF um að leita eftir skráningu færeyskra félaga á íslenska markaðnum. Færeysk félög á íslenska markaðnum eru nú sem fyrr segir, fjögur.